19.7.04

Ekki heimshryggð

Ég hef áhyggjur af því að þið haldið að ég sé alvarlega þjáð af þunglyndi og almennri heimshryggð. Því fer fjarri, ég er hamingjusöm og frekar glaðlynd að eðlisfari. Það er bara of mikið um að vera í heiminum til að maður geti látið eins og ekkert sé fyrir framan tölvuna sína. Ég ræð ekki við þetta, mér finnst svo lítilsvert að skrifa um hversdagsleikann minn og fer alltaf út í einhverjar pælingar sem yfirleitt enda með því að vera svartar sem hafið.
Ég fór í gærmorgun með alla fjölskylduna á flóamarkaðinn á Porte de Clignancourt. Við vorum að leita að afrískum búbúkjólum á Emblu vinkonu. Ég fann búbú kerlingu sem átti fullt af búbúkjólum og valdi hjá henni fjóra mislita kjóla og nú er bara að sjá hvort Embla vilji þá. Búbúkerlingin var stór og mikil og mjög erfið í viðskiptum. Hún fæddist með prúttið í blóðinu, hvernig á bláeygð gerfirauðhærð stúlka frá landi þar sem verðið er verðið, hversu ruddalega hátt sem það er, að eiga sjens á því að sigra þessa glímu sem prúttið er? Ég lækkaði verðið á öllum fjórum kjólunum um 20 evrur samtals, en er nokkuð viss um að ég hefði átt að fá kjólana fyrir 20 evrum minna í viðbót. Nú er ég ægilega stressuð yfir því að snjakahvíta búbúkerlingin mín hún Embla verði ekki hrifin af kjólunum, og þá sit ég uppi með fjóra of stóra kjóla. Verð líklega þá að bera þá til Íslands í næstu ferð og stilla mér svo upp við innganginn á Kolaportinu og selja þá þar.
Markaðurinn á Clignancourt er alltaf jafn frábær. Þar er stór hluti með Kolaportshluti, þ.e. nýtt drasl (athugið að orðið DRASL öðlast nýja þýðingu þegar maður gengur um á milli stórra bása troðfullra af alls konar ónytjum og yfirleitt ljótum ónytjum) en svo eru margar skemmur með frábærum antíkbúðum og auðvitað litlu göturnar í Vernaison-markaðnum þar sem hinn dásamlegi veitingastaður Chez Louisette leynist.
Chez Louisette felur hverja nýja hrukku með nýju jólaskrauti. Ég veit ekki hvar þetta mun enda, hversu mörgum glimmerborðum og jólaseríum og stjörnum og glingri er hægt að troða í einn matsal án þess að fólki verði óglatt og hætti við að borða kræklingana og stóru heimagerðu frönskurnar undir glymjandi orgelinu og tærum söng fólks sem lifir í þeirri trú að VÍST séum við enn á 7. áratug síðustu aldar?
Það er alltaf jafngaman að koma til Louisette þó ég hafi sárt saknað gamla tannlausa Elvis/Leningrad Cowboy sem syngur O Sole Mio og spákonunnar minnar sem segir manni fyrsta stafinn í nafni manns.
Vitanlega var ekkert antík keypt, enda er það gersamlega fokdýrt þarna, það er bara svo gaman að rölta um og skoða alla fallegu hlutina og fá innblástur. Hins vegar keyptum við okkur röndóttar mussur og Dr. Martens skó á Arnaud sem neitar samt að henda hinu tvítuga pari, segist geta notað þá eitthvað lengur á bökkunum. Hann heldur að hann hafi unnið þeim inn 3ja mánaða lífsframlengingu, en honum skjátlast. Við versluðum sem sagt nákvæmlega sömu hluti og ég hefði getað keypt þarna 1989, þegar ég kom þarna fyrst. Merkilegt hvað sumir hlutir breytast ekki. Ætli ég verði einhvern daginn ein af þeim sem kem á rándýrum bíl og versli mér húsgögn í stóru íbúðina sem ég var að kaupa með útsýni á Eiffel? Og finni þá nostalgíu í hjarta þegar ég geng fram hjá Dr. Martens salanum? Kaupi jafnvel eina græna og eina fjólubláa (sem mig langaði í en tímdi ekki í gær) bara svona upp á grínið?
Eins og þið sjáið, er ég alltaf jafndugleg að enda setningar mínar í spurnartóni, en það eykur ekki á kommentaþörf lesenda minna.
Lifið í friði, þarf að fara að stilla slíkt milli Sólrúnar og Kára sem eru að slást um blómið sem Tryggvi bjó til handa mér þegar ég brenndi mig um árið...