13.7.04

Ofbeldi gegn konum er ört vaxandi vandamál á vesturlöndum samkvæmt nýlegri skýrslu Amnesty International. Fjölmargar konur eru myrtar á hverju ári af maka sínum, fleiri en þær sem deyja í bílslysum eða úr krabbameini. Þetta er háalvarlegt mál og tími til kominn að stjórnvöld geri eitthvað til að hjálpa konum sem verða fyrir ofbeldi á heimili sínu. Til dæmis þarf að fjölga kvennaathvörfum. Í París er EITT kvennaathvarf sem tekur á móti konum með börn, og þær mega aðeins dvelja þar í sjö nætur. Eftir það fara vitanlega flestar aftur heim, þar sem þær eiga oft ekki í önnur hús að venda og eru oft gersamlega peningalausar. Ýmsir aðrir staðir taka á móti konum á daginn og aðstoða þær við að ganga frá skilnaði og þess háttar, en aðeins einn staður er virkilegt athvarf, og mig minnir að þeir taki á móti fimmtán konum í einu. Þessi mál eru í algerum ólestri í Evrópu allri. Stjórnmálamenn kæfa vandamálið alltaf með afsökunum um að þetta varði einkalíf og þeir geti því ekki skipt sér af því. Gleymið ekki að þeir skipta sér af ýmsu öðru úr einkalífi okkar, s.s. hvernig við eyðum peningum okkar, hvað við fáum góð lán o.m.fl.
Annað sem kemur fram í þessari skýrslu er, að þvert á allar hugmyndir sem við höfum um heimilisofbeldi, er í fyrsta lagi ekki meira um það í löndum sem eru viðurkennd sem "karlremburíki" þ.e.a.s. Suður-Evrópa er alls ekki verri en Norður-Evrópa, heldur skárri ef eitthvað er. Rúmenía er verst, en síðan koma mjög ofarlega á listanum Finnland (í öðru sæti) og Svíþjóð og Noregur fljótt á eftir. Í öðru lagi er heimilisofbeldi alls ekki algengara í neðri hópum þjóðfélagsins, í Hollandi er t.d. helmingur morðingjanna með háskólagráðu og oft virðist ofbeldið vera verra/ljótara á heimilum með háar tekjur og góða menntun.
Því miður fór maðurinn minn með blaðið með greininni um þetta (í Monde Diplomatique) í vinnuna svo ég hef ekki nákvæmar tölur. Birti þær við fyrsta tækifæri.
Það er ótrúlegt og óþægilegt til þess að hugsa að helmingur kvenna búi við einhvers konar ofbeldi á heimili sínu. Ég get ekki ímyndað mér neina af vinkonum mínum í þessari stöðu, og vona svo sannarlega að þær myndu koma til mín ef þær lentu í slíku. Ég veit að ég myndi gera hvað sem er til að hjálpa hverri þeirri konu sem væri, ef hún leitaði til mín. Það er einmitt allt í báli og brandi hér í Frakklandi vegna stúlku sem kærði hrikalega árás á föstudag í RER-lest (metró sem fer langt út í úthverfin). Sex strákar áttu að hafa ráðist á hana og rifið föt hennar, klippt hárið og krotað hakakrossa á maga hennar og hrint kerru með 13 mánaða barni hennar. Fullt af fólki í vagninum og enginn gerði neitt. Málið er, að stúlkan virðist hafa logið þessu, ekki eitt einasta vitni hefur gefið sig fram, eingöngu ættingjar sem segja stúlkuna lygasjúka og hún hefur kært ýmis konar þjófnaði og árásir, fimm eða sex sinnum á síðustu mánuðum á mismunandi lögreglustöðvum.
Það breytir því þó ekki, að fréttamenn fóru á stúfana um helgina, ræddu við farþega á þessari RER-línu, og fengu marga til að játa að þeir hefðu ekkert gert ef þeir hefðu orðið vitni að svona árás. Pælið í þessu! Get ekki ímyndað mér mig sitjandi þegjandi horfandi á einhverja gaura klippa hárið á öskrandi stúlku og lítið barn í kerru að horfa á. Ég GET ekki trúað öðru en að ég hefði staðið upp og öskrað og steytt hnefum og jafnvel hjólað í þessa gaura. Ég GET ekki lifað í sátt við sjálfa mig öðruvísi en að trúa því að ég sitji ekki hjá þegar ráðist er á fólk fyrir framan nefið á mér. En fullt af fólki segir bara: Nei, við erum of hrædd, það borgar sig ekki að blanda sér í annarra vandamál.
Um helgina var einmitt sýndur grínþáttur þar sem stjörnur leika sér með falda myndavél. Í zapping (brot af því besta þáttur á Canal+) sáum við unga konu skokka í garði og þykjast detta með látum fyrir framan aðra skokkara. Skokkararnir hopuðu, hikuðu, stundum næstum dottnir um stúlkuna, en undantekningalaust héldu þeir samt áfram, tóku bara sveig og skokkuðu á brott án þess svo mikið sem að spyrja stúlkuna hvort hún væri óbrotin! Pælið í þessu! Þetta er alveg í takt við það sem ég er að segja um að þjóðfélagið er hætt að hafa samúð með AUMINGJUNUM. Þeir kalla þetta yfir sig. Hvað er stúlka að gera í lest ein og án fylgdar? Hvað er stúlka að skokka ef hún getur ekki staðið í lappirnar? Hvað er konan að gera með manni sem lemur hana?
Við lifum við frumskógarlögmálið og hörðnum á hverjum degi, ef við leggjumst ekki bara niður og deyjum.
Ég er sorgmædd í dag. Sorgmædd yfir því að við erum öll að breytast í nashyrninga með harða skorpu og einstefnuhugsun. Ionesco var kannski ekkert að tala um nasistana, kannski var hann að tala um vestrænt þjóðfélag í heild sinni. Nasisti, rasisti, þjóðernissinni, eiginhagsmunaseggur, þetta eru allt saman tilbrigði við sama stefið. Hvar ert þú?
Lifið í friði.