5.8.04

Er ojbara að spara?

Sparnaður hefur verið mér ofarlega í huga upp á síðkastið. Ég hef mikið spáð í lífsstíl, gerviþarfir, nauðsynjar og annað sem kemur peningaeyðslu við.
Mér finnst það mjög undarlegt viðhorf margra, að sparnaður sé ákaflega lummó. Líklegast er það að hluta til vegna þess að fólk ruglar saman sparnaði og nísku sem eru í mínum huga tveir ólíkir hlutir.
Mér finnst sparnaður einmitt vera andstæða þess að vera lummó. Fólk sem lifir sparlega, vandar sig við innkaup, kaupir ekki óþarfa og ber hæfilega virðingu fyrir peningum sem nauðsynlegu vopni í lífsins baráttu, á mína virðingu mun frekar en fólk sem lifir um efni fram, sullar peningunum upp úr veskinu eyðandi í alls kyns drasl sem er búið að sannfæra okkur um að við þörfnumst. Risastórt sjónvarp, leðursófi, flotta sumarfríið, nýjasti geisladiskurinn, allt þetta er gott mál ef maður hefur efni á því. Ef maður hefur ekki efni á því, en veitir sér það samt sem áður, er maður fallinn í þann forarpytt að vera þræll ÓVINARINS, kolkrabbans, drottnandi valdhafanum, þessum sem pælir út hegðun okkar og stýrir henni um leið. Hver getur borið virðingu fyrir þræl sem gengur sjálfviljugur í ánauð?
Sparnaður er líka ekki bara spurning um að eiga nóg fyrir lífinu, í sparnaði felst oft mikil verndun á plánetunni jörð, sem er í stórhættu hvort sem okkur líkar betur eða verr og hvort sem okkur finnst lummó að tala um það eður ei.
Nokkur dæmi um sparnað sem ég fíla vel:
Ein sem ég þekki sagðist þvo sér með sjampói og setja gel í hárið á sér annan hvern dag en ekki á hverjum degi þar sem hún sparaði fullt af geli á því. Henni fannst hún hálf hallærisleg þegar hún viðurkenndi þetta, var hrædd um að ég gæti hlegið að þessari vitleysu. Ímyndið ykkur ef allar sjampó- og gelkonur notuðu helmingi minna af þessum óþverra sem við skolum úr hárinu á okkur og út í sjó. Ein og sér gerir hún kannski ekki mikið fyrir heiminn, en hvert um sig getum við myndað stóran hóp og þá skiptir hver dropi sköpum. Eftir að ég heyrði þetta fór ég að minnka sjampónotkun töluvert, og finn engan mun, finnst ég alls ekki skítugri en áður.
Ég frétti af einni tæplega tvítugri sem keyrir bílinn sinn ekki alla leið heim til að spara smá bensín. Allir hlægja, en pælið í því ef allir Reykvíkingar tækju sig til og færu að spá í dropana. Mengun og hrikaleg völd bensínfyrirtækjanna myndu kannski dofna eitthvað. Fyrir utan hreyfinguna sem gerir öllum gott!
Við hjónin hættum að kaupa geisladiska fyrir nokkrum árum. Þegar ég segi hættum, þá meina ég auðvitað ekki að síðan hafi ekki einn einasti diskur bæst í safnið. Maður bara hugsar sig aðeins betur um en áður. Þetta er auðvelt fyrir okkur þar sem ég hlusta náttúrulega alltaf mest á gamalt og gott sem ég á í bunkum, og maðurinn minn fær lánaða óperudiska úti á bókasafni. ÓKEI, ég skal viðurkenna að tónlistarlega séð erum við hálfgerðar lummur, en ég skal ekki hnika í áliti mínu á því að fólk sem þarf alltaf að kaupa alla nýjustu tónlistina er að hamast við að fylla eitthvað tóm sem engin nútímapopptónlist mun nokkurn tímann ná að fylla.

Það er ekkert hallærislegt að fara í nokkrar mismunandi búðir til að gera alltaf bestu kaupin.
Það er ekkert hallærislegt að svíða í hjartað þegar maður hendir mat.
Það er ekkert hallærislegt að tíma ekki að kaupa sér pitsu á 2.000 kall (er það ekki annars gangverðið þarna heima?).
Það er ekkert hallærislegt við að fara bara upp í Munaðarnes í staðinn fyrir að fara til Flórída eitt og eitt sumar.
Það er ekkert hallærislegt að nota strætó.
Það er ekkert hallærislegt að eiga lítið sjónvarpstæki.
Það er ekkert hallærislegt að gefa skít í nýjustu tísku og fara í ódýra hárgreiðslu og lita sjálfur á sér hárið og svona mætti lengi áfram telja.
Ég er sparsöm og passa mig að vera helst aldrei undir núlli á reikningnum. Það kemur þó stöku sinnum fyrir, en ég veit alltaf að þá er það bara tímabundið og þá herði ég vitanlega sultarólina og barma mér ekki yfir því á meðan. Ég held alveg örugglega að enginn af mínum vinum myndi lýsa mér sem nískri manneskju og m.a.s. er ég viss um að sum hlægja sig máttlaus af því að lesa þetta, ég er mikil lífsnautnamanneskja og fer t.d. stundum á bari þar sem kampavínsglasið er selt á verði heillar flösku annars staðar, BARA til að njóta þess að vera prinsessa í klukkutíma.
Bankinn hirðir ekki stórfé af mér í vexti á hverju ári. Það finnst mér smart. Og þeir sem reyna að sannfæra mig um að það sé leiðinlegt að lifa þannig, finnst mér lummó. Ekki leiðinlegir, en lummó.
Lifið í friði.

P.S.
Ég er orðin leið á því að fólk segist t.d. ekki hafa tíma eða pláss til að flokka ruslið og að það skipti hvort eð er ekki máli. AUÐVITAÐ skiptir það máli!