3.8.04

Danmörk og rusl

Danmörk er, eins og Ísland, alveg indælt land. Verst að þeir kusu yfir sig öfgahægristjórn og verst hvað þeir kasta rusli úti á götu. Ég er orðin sérlega viðkvæm fyrir ruslkasti og hef hafið mitt einkastríð gegn því. Tókst um daginn að ganga að konu og benda henni á að hún hefði "misst" og þegar hún sagði að þetta væri viljandi beygði ég mig eftir því og fór sjálf með það í ruslið. Hún varð eins og auli í framan og náði skilaboðunum. Kannski hún hætti að henda rusli? Gerði þetta líka í garðinum yndislega hans Gádí í Barcelona um árið. Hvet ykkur til að gera það sama. Ég hef lengi vanið mig á að t.d. týna upp stærsta ruslið í almenningsgörðum sem ég kem í og á ströndum sem ég ætla að leggjast á. Mér finnst það hreint ótrúlegt hvað fólk er ónæmt gagnvart þessu og þessi setning um að það sé fólk í vinnu við að týna upp ruslið gerir mig líklega bráðlega gráhærða.
Annars var ég að tala um Danmörku. Ég fór í lítinn heim á lítilli eyju og leið eins og prinsessu. Fékk gott að borða og drekka og heilun og árustillingu og skemmtilegar samræður og lá í hengirúmi og hlustaði aldrei á fréttir né sá á sjónvarp og þetta jafnast á við mánaðarfrí á sólarströnd svei mér þá.
Hitinn hérna í París sér svo um að maður er dauðuppgefinn eftir nokkra daga í móðurhlutverkinu á ný. En ég ætla þó ekki að kvarta, hér er gott veður og gott að fá sól og hita eftir þetta undarlega sumarleysi hérna.
Við skírðum Optimistann með pompi og pragt, þetta verður frábær staður þegar lati-Bauni nennir að gefa leyfið út.
Mæli eindregið með Óðinsvé sem er skemmtileg útfærsla á ekki ósvipaðri borg og Reykjavík.
Jæja, ég er þreytt og ætla að nota tækifærið meðan börnin sofa til að leggja mig sjálf. Fór sko í hypermarkað í morgun og það er nú bara til að færa mann skrefi nær lokahvílunni...
Lifið í friði. KKK.