18.7.04

Það er að líða að miðnætti. Ég er yfirleitt farin að sofa miklu fyrr á kvöldin, en í kvöld er ég andvaka. Gafst upp á að lesa, allt of mikið að brjótast um í kolli mínum. Ákvað að fara fram og blogga smá í staðinn, eða blóka eins og ég sá á síðu hjá ungum manni í dag. Hann sannaði það fyrir mér sem mig grunaði, að fólk rétt upp úr tvítugu getur líka verið hugsandi. Var nefninlega næstum farin að örvænta eftir töluvert flakk um síður ungra Íslendinga.

Hér koma tölurnar upp úr greininni í Le Monde Diplomatique um ofbledi á konum í Evrópu:
Rúmenía: 12,65 af milljón konum drepnar á ári hverju af maka sínum.
Finnland: 8,65 af milljón.
Noregur: 6,58.
Lúxembourg: 5,56.
Danmörk: 5,42.
Svíþjóð: 4,59.

Í Þýskalandi eru um 300 konur drepnar af maka sínum á ári, eða 3 konur á 4 dögum. Á Spáni eru fórnarlömbin um 100 konur á ári. Svona gæti ég haldið áfram. Fleiri tölur eru gefnar upp í greininni, en vitanlega er ekki minnst á Ísland, frekar en vanalega.
Einhver Íslendingur sem ég minntist á þessar tölur við, var snöggur að rifja upp sögur af innflytjendum í Svíþjóð sem höfðu myrt stúlku fyrir að vera ástfangin af sænskum dreng. Þessar tölur hafa ekkert með slíkt að gera, og ég minni aftur á að það sem kemur á óvart er hversu hátt hlutfall morðingjanna er með góða menntun og góðar stöður. Og PLÍS hættum að skella öllum skuldum alltaf á blessaða innflytjendurna. Þarf ég að minnast á skemmdu eplin og allt það? Megnið af innflytjendum er bara venjulegt fólk sem vill venjulegt líf og hefur þjáðst mikið fyrir að þurfa að yfirgefa ofsóknir og kúgun í föðurlandinu. Er einmitt að flýja ósóma eins og aftökur á unglingsstúlkum í heimahúsum og annað sem öfgasinnaðir brjálæðingar taka upp á. En þessar svörtu hugrenningar munu ekki hjálpa mér í baráttu við andvökuna.
Ég er ánægð með að heyra fleiri og fleiri lýsa því yfir að þeir neiti að standa hjá þegar ráðist er á minni máttar og ég vil þakka Eg fyrir orðin sem hún lagði í belg þar sem hún lýsir því hvernig hún stöðvaði mann með hníf í einhverju hugrekkisástandi sem mætti líkja við bræðiskast. Það hjálpar mér að vita að kenning mín er þá rétt, að þessi bræði sem ég finn við að hlusta á fréttirnar af árásum geti komið manni til að stíga fram gegn stærri máttar. Oft er það nóg að stíga fram, oftast eru árásarmennirnir bleyður og hugleysingjar og leggja niður skottið um leið og þeim er sýnd mótstaða. Eins er löngu sannað að ef einn skiptir sér af einhverju óvanalegu úti á götu, hlaupa yfirleitt fleiri til líka, voru kannski hikandi við að taka fyrsta skrefið en eru tilbúnir til að aðstoða um leið og einhver brýtur þann ísinn.
Í stjórnarskrá Frakka segir að sé brotið á einum þegn, er brotið á allri þjóðinni. HVAÐ EF við lifðum í samræmi við þetta á heimsmælikvarða og berðumst jafnharkalega gegn misrétti sem aðrir verða fyrir eins og við gerum þegar við sjálf verðum fyrir slíku?
Þið megið kalla mig draumóramann. En ég er ekki ein. Vona að dag einn bætist þú í hópinn. Og heimurinn lifi saman sem einn. (John heitinn Lennon).
Góða nótt og sofið rótt í alla, alla, alla nótt.
Lifið í friði.