la vie - oh folle été
Ég hef í rauninni ekkert að segja, en það er snilldin við eigin bloggsíðu, hér get ég látið móðan mása um ekki neitt og enginn getur bannað mér það.Þegar ég kem til Íslands virðist ég breytast í jarðálf, missa allt samband við mannfólkið og renna saman við náttúruna og fjölskylduna mína, jarðálfana, og, það verður að játast, ekki verða fúl, ég sakna mannfólksins ekki neitt.
Sólin hefur verið sleikt, Snæfellsnesið sótt heim, kafað í sundlaugar hér og þar, Mosfellsbæjarlaugin er efst á óskalista barnanna alla daga, ég verð að játa að sturtur sem stoppa á mínútu fresti trufla mig svo ógurlega ásamt hilluleysinu í mínímalismanum í búningsklefunum, að ég fer ekki þangað alltaf með jafnglöðu geði og í aðrar laugar.
Rennibrautirnar eru hins vegar snilld og þó að samskeytin meiði mig dálítið, finnst mér ekkert smá gaman að þeytast niður þá appelsínugulu og kastast á fleygiferð út í vatnið. Ég er sem sagt þessi litla rúnnaða kerling sem ýtti börnunum til hliðar og frekjaðist fremst í röðina hvað eftir annað í sólinni á dögunum.
Síðustu daga hef ég svo aðstoðað gamla settið við að mála lítið hús á stóru landi fyrir austan fjall. Húsið þykir ekki merkilegur pappír í flotta sumarbústaðarlandinu, eigendurnir eru yfirleitt spurð strax að því hvenær þau ætli svo að byggja "almennilegt" hús á lóðinni. Allt í kringum þau rísa upp mis ofurhannaðar hallir og hamagangurinn í sumum með stórvirkar vélar til að vinna á móanum minnir á ambisjónir Le Nôtre, garðyrkjumeistara Loðvíks 14.
Mér finnst litli græni kofinn indæll en ég er líklega hálfur álfur, svo kannski er ekkert að marka.
Í vor innritaði ég mig í íslensku í HÍ. Ég er búin að fá leið á því að vera að gera allt í lífinu sem amatör, nú verður stefnt á stóra hluti en byrjað á réttum reit, ekkert svindl fram fyrir röðina hér. Verst að ég ætlaði að kaupa námsefnið en það kemur ekki fram á neinum haustkúrsanna og var mér tjáð að þetta væri eðlilegt ástand. Frekar svekkjandi.
Ég keypti mér nú samt nokkra doðranta í bríaríi því ég var í afar góðu skapi þegar ég kom inn á bóksöluna að spyrjast fyrir.
Öll ráð varðandi málfræðibækur og annað efni tengt íslenskunámi er vel þegið.
Nú á ég þriðjudag og miðvikudag í hinni björtu borg villuljósanna, spurning hvernig þeim verður eytt, ég hef svikið öll loforð um kaffisamsætismætingar, tónleikaferðir og annað sem ég hélt ég ætlaði að ná að gera í þessari ferð. Ég ætlaði að segja að ég væri ekki með samviskubit en þá fann ég það nísta mig tvöfalt. Ég er alltaf rifin í tvennt þegar fer að líða að brottför.
Á morgun fer ég að öllum líkindum í húsdýragarðinn að segja bless við selina.
Ættum við kannski að plana bloggpikknikk á miðvikudag? Hvernig er spáin? Sól á Klambratúni klukkan fjögur?
Þessi júlímánuður er náttúrulega búinn að vera stórkostlegur, sjáiði bara hvað það er nú heppilegt að hafa svona rammgöldróttan sóldýrkanda á landinu.
Eru ekki allir í stuði?
Lifið í friði.
<< Home