31.7.07

gott og vont og svo gott

Það er gott vont að vera komin heim að heiman.

Gott að vera komin í rúmið sitt, vindsængur eru ágætar en ekki of lengi.
Gott að vera komin í allt litla smádótið sitt aftur, já, ég verð að játa það að mér þykir ógurlega vænt um dótið mitt en ég get líka sagt ykkur það að ég er með miklar áætlanir um að grynnka á dóti í íbúðinni núna í ágúst en nánar um það síðar.
Gott að engar kókosbollur fást hérna.

Vont að geta ekki kysst mömmu og pabba góðan dag og vont að vera komin langt í burtu frá öllum hinum.
Vont að komast ekki í almennilega sundlaug.
Vont að ekki fást kókosbollur hérna.

Við skiptum á íbúðum við fjölskyldu í Reykjavík. Eins og alltaf gekk það vonum framar, hér var allt eins og það á að vera og vonandi fannst þeim hinum það líka við heimkomu.
Ég mæli eindregið með þessum ferðamáta, það er vissulega dálítið vesen að skilja íbúðina sína eftir þannig að hún þoli glöggt auga gestsins, ýmislegt sem maður drífur í að taka í gegn og því dálítið meira brottfararstress en ella. Hins vegar er gaman að vera inni í annarra manna íbúð, skoða húsgögn og niðurröðun, skipulag, litaval og ímynda sér hvernig fólkið er. Fullkomið fyrir forvitna manneskju eins og mig.
Ég er svo vel upp alin að ég fer ekki að grúska í skápum og boxum, les engin gömul bréf eða neitt slíkt og treysti því að fólk geri það ekki hér hjá mér. Ef það gerir það siptir það ekki miklu máli, ég hef aldrei fengið bréf frá Jónínu Ben (né Gerald hvað hann nú heitir). Ég á reyndar bréfabunka frá fegurðardrottningu hverrar nafn sést reglulega á forsíðum glanstímarita og slúðurblaða en bréfin eru frá því við vorum tólf til fimmtán ára og líklega ekki neitt nógu sjokkerandi og spennandi í þeim fyrir slúðurblaðahaukana.

Gestirnir okkar höfðu hins vegar skilið eftir Marie Claire Maison, svona franskt hús og hýbýlablað. Ég fletti því hér í þreytutransi í gær og hneykslaðist ógurlega á verðlagi á hönnun. Hver í fjandanum kaupir sér sólstól á fjörtíuþúsud? Eða garðstól á hundraðþúsund? Ég er svo sem alveg á því að fólk sem slysast til að verða of ríkt, spanderi nógu andskoti miklu, finnst fátt ömurlegra en ríkt fólk sem tímir ekki að eyða peningum svo líklega er þetta bara allt í lagi. En samt er eitthvað skakkt við þetta, er það ekki?
En það var ekki um þetta sem ég ætlaði að skrifa, heldur rakst ég á "ægilega smart" ruslatunnu sem lítur nokkurn veginn út eins og allar þessar upparuslatunnur sem finnast í Habitat og fleiri hönnunarbúðum. Nema hvað að þessi tunna heitir hvorki meira né minna en því sjóðheita nafni REYKJAVÍK.
Þetta fannst mér gasalega fyndið og skemmtilegt og spennandi og skil ekkert í því að þessu hafi ekki verið slegið upp á forsíðum íslenskra dagblaða, en kannski var það búið og gert?

Svo í lokin má geta þess að allir beygja sig og bukta fyrir okkur hérna, því við teljumst hafa komið með góða veðrið með okkur. Sól, blíða og 25 stig. Er hægt að biðja um eitthvað meira?

Lifið í friði.