13.2.06

supprimer ce blog

Ég var að breyta svolitlu áðan og var næstum því búin að ýta á "supprimer ce blog" í staðinn fyrir "enregistrer les modifications". Þá hefði ég eytt blogginu út af alnetinu í staðinn fyrir að staðfesta breytinguna smáu.
Sem mér þótti mjög undarlegt þar sem ég er búin að hugsa oft í dag að nú sé ég hætt.
Af hverju blogga?
Vandamál mitt er að mig langar svo til að ígrunda betur nokkur hugðarefni og skrifa svo um þau almennilega og kannski á vitrænan hátt (eða þá afar heimskulegan hátt, það kæmi þá bara í ljós og næði ekki lengra).
Mig langar að velta fyrir mér FRÉTTUM, vondum og góðum og hvernig fréttatímarnir eru notaðir sem tæki til að blinda okkur í staðinn fyrir að upplýsa okkur.
Mig langar til að pæla meira í trúmálum og hvers vegna svo margir vilja alltaf tengja trú öfgum þegar trú er eitthvað, kannski bara dóp, en kannski eitthvað miklu meira og "guðlegra", hvað veit ég og hvað veist þú? Mig langar að pæla í því sem kannski er ekki pælandi í, ég veit það ekki.
Svo er það jafnréttið og ýmislegt fleira sem er sífellt og ævinlega að veltast um í kolli mínum. Sem ég held heilu ræðurnar um í kolli mínum þegar ég næ stund með sjálfri mér sem er farið að verða afar sjaldgæf gullímundstund í mínu lífi, a.m.k. það sem af er þessu fróma ári. Helst kannski þegar ég er að keyra, sem ég geri sem betur fer afar sjaldan.
En þá get ég þrumað í höfði mínu alls konar útlistanir, teóríur, hypótesur og dæmi sem komast svo aldrei neitt lengra af því þegar ég sest við tölvuna eyði ég löngum tíma í að lesa annarra manna blogg og svo þruma ég einhverju smotteríi sem mér finnst stundum sjálfri hunddjöfulli leiðinlegt en læt samt standa, kannski í einhverri undarlegri trú á því að ég sé að standa einhverja pligt gagnvart einhverjum lesendum.
BúAH.
Þreytt.
Þreytt á að vera alltaf að gera helminginn af öllu. Kafa aldrei alla leið. Þreytt á medíókrunni.

En ég er gersamlega háð þessu bloggstandi í augnablikinu. Og mun ekkert hætta. Er ekki að biðja um 20 komment um það að ég eigi ekki að gera það. Bara að spekúlera. Spá. Velkjast í vafa með sjálfa mig og allt sem ég er að gera. Og það má.

Mér finnst reyndar einn helsti kostur blogganna vera að það er einhvers konar styrkur falinn í því að lesa um daglegt amstur eða vafstur og pælingar annarra. Að sjá að þrátt fyrir fréttir af stríðum og óréttlæti, auknum glæpum og sjúkdómum, útrás og fjárfestum og öðru sem fær mann til að langa til að ganga fram af næsta kletti, sé heimurinn bara blindhaugafullur af skítsæmilegu fólki eins og mér. Listelskandi, hjartagóðu, temmilega gagnrýnu og bitru stundum (annars er maður nú bara púra leiðinlegur), og að þetta fólk er ekkert endilega að pæla nákvæmlega sömu hluti og ég en þau eru þarna úti og nú veit ég af þeim. Og ég hef alltaf trú á því að þessi heimur sé bara að fara batnandi. Þrátt fyrir allt.

Lifið í friði.