Jón Kalman
Það er svo undarlegt að ég las helming af bók eftir Jón Kalman um jólin í íbúðinni sem við vorum með að láni. Dró hana út úr hillu fullri af ólesnum bókum og var svo undrandi á því hvað þarna var góð bók á ferð. "Sumarið bak við brekkuna" minnir mig að titillinn sé. Bráðskemmtilegur stíll. Fór að spyrja mig hvers vegna ég þekkti ekki þennan höfund. Mundi eftir því smám saman að við og við skrifar þessi maður góðar greinar í Lesbókina. Ég er sko haldin nafnaminnisleysi á háu stigi og á alltaf mjög erfitt með að tengja upplýsingar saman. Þetta bætist ofan á sjúklega andlitsblindu mína.Þess vegna fleytist ég oft lengi um á vitundarleysishafi áður en mér tekst að skilja að þessi og þessi eru sami maðurinn eða konan. Hakka bara í mig greinar og pistla án þess að vita almennilega hver er hver eða hvað er hvers.
Ég hef oft kvartað yfir skorti á "séð og heyrt" upplýsingum um fólkið sem birtist í Lesbókinni. Stundum er ég að farast úr forvitni á því hver sefur hjá hverjum í listaheiminum. Einnig mætti kannski vera örlítið um aldur og fyrri störf þegar fólk skrifar þar? Eða á maður alltaf að hoppa beint í tölvuna og gúggla? Yfirleitt les ég Lesbókina uppi í rúmi á kvöldin og það eina sem gæti hugsanlega dregið mig framúr aftur er þorsti eða löngun til að losa vökva. Myndi aldrei fara framúr til að gúggla einhverjum jónum eða sigríðum.
Ég er búin að spá mikið í góðar fréttir/vondar fréttir vandamálið. Nú þarf ég að fá góða stund til að skrifa um það fljótlega. En um helgina þarf ég að halda barnaafmæli og íbúðin er eins og hún hafi verið tekin upp (af guði?) og hrist rækilega. Það verður því ekki fyrr en í næstu viku.
Meðan þið bíðið getið þið lesið þakkarræðu Jóns Kalmans á Bjartur.is. Það er falleg lesning. Til hamingju Jón, hver sem þú ert og hverjum sem þú sefur hjá.
Lifið í friði.
<< Home