samtíningur
Fyrir nákvæmlega fjórum árum í dag urðu stærstu kaflaskipti lífs míns. Þá varð ég mamma. Og nú á ég tvö stykki barna. Og á enn erfitt með að trúa því.Í dag urðu kaflaskipti í lífi mínu því ég rauk hér út fyrir klukkan átta (og jörðin var hvít, en það föl er nú farið þó eitthvað hafi tutlast niður snjókornum í allan dag) og fór í leikfimi. Ég er mjög ánægð með að vera ekki nógu fræg til að paparazzi hafi áhuga á mér. Það hefði ekki verið fögur sjón að sjá mig á forsíðu einhverra sóðablaða baðandi út öngunum, missandi blessaða stöngina sem notuð var allan tímann, rauð í framan eins og fegursta jólakúla. Mér er illt alls staðar en er afar montin með mig samt.
Í dag er ég alveg um það bil að fá nóg af umræðunni um skopmyndir af Múhammeð. Mér finnst umræðan um þetta arfaleiðinleg, og nenni ekki að hefja sama söng og þegar ég reyndi að sannfæra fólk um að París stæði ekki í ljósum logum á dögunum, þvert á það sem öll dagblöð heimsins reyndu að telja okkur trú um. Hef aðeins þetta að segja: Vinkona mín í Óðinsvéum kyssti þrjá múslimska vini sína í gær bless. Þeir voru nákvæmlega eins og alla aðra daga. Glaðir og kátir. Einn þeirra uppástendur að sögur af því að múslimir hafi verið hvattir til að sniðganga vörur frá Danmörku hafi byrjað sem brandari í kjörbúð þar í landi. Einhver húmoristi sagði þetta við vin sinn og fjöður varð að hænsnabúi í kjölfarið. Ég veit náttúrulega ekki hvort þetta er heilagur sannleikur, en er jafn tilbúin til að trúa þessu eins og hverju öðru sem ég heyri um þetta mál.
Mér finnst athugavert að ritstjóri France Soir var rekinn eftir að birta myndirnar, en eigandi blaðsins er viðskiptajöfur (group eða hvað sem þið viljið kalla það) og á mikil viðskipti við Mið-Austurlönd. Svona fer með dagblöð þegar viðskiptakallar eiga þau, ekki hægt að birta hvað sem er.
Mér finnst merkilegt að einhvers staðar sá ég (ég held að það hafi verið í svari á kommentakerfi einhvers staðar) að nú sé alltaf verið að "ota islamstrúnni að okkur og börnum okkar". Ég kem af fjöllum. Bý í nábýli við mikið af múslimum (og gyðingum) og hef algerlega verið látin í friði. Trúi því varla að múslimir standi og boði trú sína á Kringlutorgum Íslands. En kannski er ég bara búin að gleyma því hvernig þetta er á Íslandi, kannski hef ég ekki fylgst nógu vel með.
Fleira hef ég hnotið um í sambandi við þetta mál. Persónulega finnst mér alltaf óþægilegt að fólk leyfi sér að gera grín að trú annarra. Persónulega hef ég lengi fundið fyrir miklum óþægindum vegna þessa skrýtna hugarfars fólks gagnvart aröbum og múslimum. Hef alltaf undrast það hvað auðvelt er að heilaþvo fólk, heilu þjóðirnar, heilu álfurnar.
Persónulega finnst mér að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir.
Þið megið kalla mig draumóramann, en ég er ekki ein...
Lifið í friði.
<< Home