7.2.06

aldrei er manni óskað til hamingju

Á föstudag skrifaði ég í upphafi færslunnar að dóttir mín ætti afmæli. Barst svo talið að leikfimi og stöngum og það var það eina sem fólk hjó eftir. Enginn óskaði mér til hamingju með dóttur mína á blogginu.

Um helgina urðum VIÐ Evrópumeistarar í handbolta. Ég hef reynt að útskýra fyrir Íslendingum hversu hollt og gott það er fyrir geðheilsuna að halda með Frökkum. En alltaf skulu þessi grey bera sömu von í brjósti um að litla landið í Norðrinu muni einn góðan veðurdag ná sér upp í íþróttasigra.
Ég verð að segja að mér finnst það krúttlegt og sætt hvernig ÞIÐ hafið alltaf þessa óbilandi tröllatrú á keppnisliðum ykkar. Og nú væri hægt að tengja yfir í Eurovision en það ætla ég samt ekki að gera. Mér finnst lagið hennar Silvíu (æ, var það skrifað svona?) fínt miðað við Eurovision lag, mér finnst hún sjálf afar skemmtileg persóna og góð breyting í íslensku grínflórunni sem hefur verið einhæf og annað hvort allt of lin við þá sem þarf að deila á eða allt of klámfengin. Silvía er flott pía og má alveg fara í Eurovision fyrir mér. Eða einhver annar. Ég er nefninlega orðin sammála Frökkum með að þessi keppni er tímasóun og er löngu hætt að fylgjast með henni.
Nú er ég enn og aftur búin að tilkynna um að ég ætli ekki að skrifa um eitthvað og gera það svo um leið. Nú er spurning um að snúa til baka og taka út setninguna um að það ætli ég ekki að gera. En það ætla ég ekki að gera. Síðast gerði ég þetta um teikningarnar af Múhammeð spámanni. Sem ég er búin að komast að síðan að er ekki alltaf bannað að myndgerva. Fer eftir löndum og öfgum ríkisstjórnanna. Algerlega bannað í Sádí, skilst mér. En þetta var útúrdúr.

Mér finnst að þið eigið öll að krjúpa á kné fyrir mér sem Evrópumeistara. Ég og strákarnir mínir erum einfaldlega best.

Lifið í friði.