10.2.06

Frelsi

Frelsi fylgir ábyrgð.

Frelsi er fölsk tilfinning í okkar þjóðfélagi.
Það er svo margt sem við megum ekki. Sumt er mjög gott að við skulum ekki mega en annað er hreinlega fáránlegt. Til dæmis er það út í hött að mega ekki hjóla á tómum gangstéttum, í tómum almenningsgörðum, að okkur frjálsu fólkinu sé ekki treystandi fyrir því að vega og meta hvort gáfulegt eða heimskulegt sé að vera á hjóli hér og nú meðan það er gott að ekki megi áreita börn kynferðislega eða drepa fólkið sem fer í taugarnar á okkur eða skíta úti á götu. Enn stendur í frönskum lögum að konur megi ekki ganga í buxum. Lagabálkar nútímaþjóðfélagsins tala í kross við sjálfa sig og fullt af fólki græðir fullt af peningum á að finna glufur í þeim og bjarga þannig fólki frá dómum. Fólki sem hefði í raun átt að sitja inni fyrir glæpi sína og allir vita það en við getum ekkert gert og viljum kannski ekki breyta þessu of mikið.

Frelsi getur verið heftandi í sjálfu sér. Það getur verið erfitt að þurfa endalaust að velja, að vita, að ráða. Ég hef stundum sagt (og eflaust einhverjir aðrir sagt það sama) að besta stjórnkerfið hljóti að vera góður, óendanlega góður og réttlátur einræðisherra. Sem að mínu viti gæti ekki orðið annað en kona og þyrfti helst að vera ég. Ef ég, Kristín, réði yfir heiminum í dag væri voðalega gott að lifa í honum. Eða ekki. Kannski Björk væri betri?

En þetta var nú bara smá augljóst bull á föstudagsmorgni, flótti frá hversdagsleikanum sem bíður eftir því að ég takist á við hann. Ég þarf að skrifa tölvupósta, senda böggla og sækja afmælisgjöf, skoða hótelvefi, skoða franskar reglugerðir um míkrófyrirtæki (sic). Ég þarf að velja í hvaða röð ég ætla að gera þetta. Það verður ekkert erfitt val, ég mun ráða við það.

En ég er að kikna undan allri þvælunni sem dynur yfir okkur í þessum fáránlega heimi okkar. Mig langar til að flytja á eyðieyju með bókaklúbbsáskrift og ekkert annað.

Nenni þessu varla lengur. Á ekkert að fara að hlýna hérna á meginlandinu?

Lifið í friði.