30.11.05

trois cent soixante six

Pistill númer 366. Kannski fer að vera komið nóg.
Komin heim og í hvílíku jólaskapi að það hálfa væri nóg. Rétt rúmar tvær vikur í brottför, áttatíu jólakort að skrifa og ná að taka mynd þar sem fegurð barnanna næst vel án þess að myndin sé væmin og uppstillt og ná að prenta hana út í réttu formati og þetta hljómar áreiðanlega allt sem hin mesta kökusneið fyrir einhverja en er mikið mál fyrir mig. Ég hef ógurlega gaman að (eða var það af, nú er ég týnd í þessu gaman að - gaman af) fjölskyldumyndunum mínum og mig óar við þeirri tilhugsun að tapa albúmunum mínum. En ég er líklega ekki mjög góður myndasmiður, ég veit að ég hef lítið auga fyrir myndbyggingu og lélegt næmi fyrir litasamsetningum. Málið er að mínar eftirlætismyndir eru yfirleitt illa teknar, vantar neðan á fólk eða hliðina eða ofan á en mér er alveg sama því myndirnar mínar eru mín móment, mínar minningar sem ég er að frysta aðallega fyrir sjálfa mig. Ég hef nú samt ógurlega gaman af (eða að?) því að skoða annarra manna myndir líka, annarra manna móment og minningar hreyfa við mér. Ég þarf ekki einu sinni að þekkja fólkið á myndunum, mér finnst fáránlega gaman að horfa á gamlar uppstrílaðar konur í sófa með tertudisk í höndunum og landslagsmynd í bakgrunni. Ég hef enga skýringu á þessu og þarf enga skýringu. Kannski veitir þetta mér einhvers konar öryggistilfinningu. Ég er mikil fjölskyldumanneskja og mér finnst líka yfirleitt gaman að fara í fjölskylduboð. Ég er líka svo heppin að allar mínar fjölskyldur (móður-, föður- og tengdafjölskyldan) eru mátulega samheldnar og mátulega samsettar úr misskrýtnu og skemmtilegu fólki.
Og á sama hátt finnst mér ógurlega gaman að senda öllum jólakort. Ég sendi um 80 kort þegar mér tekst að ljúka listanum, þau urðu nú ekki nema 60 í fyrra. Ég sendi eftirlifandi vinkonum ömmu minnar, gömlum nágrönnum og alls konar fólki sem ég hitti nánast aldrei. Ég held að ég hafi fengið eitthvað í kringum 10 kort á pappír í fyrra. Ég tel tölvupóst ekki með, mér finnst tölvupóstur ekki geta komið í staðinn fyrir jólakortin sem ég opna við mikla seremóníu eftir að pakkarnir hafa verið opnaðir. Þá er hitað kaffi og konfekt dregið fram og jólakortin lesin í rólegheitunum, myndirnar skoðaðar og stundum hlegið dátt, hent að öllu gaman. Ég er náttúrulega alger jólaálfur og elska jólin og allt sem þeim viðkemur. Ég kemst við þegar bjöllurnar hringja í útvarpinu og get yfirleitt ekki sungið heims um ból án þess að klökkna. Hvaða játningablogg er þetta eiginlega? Best að hætta áður en ég fer út í viðkvæmari sálma.

Lifið í friði.