24.11.05

farin bless

Ég er að fara í vinnuferð. Kannski eins konar vísindaferð. Til Bournemouth. Vísindarannsóknin verður þó ekki þar heldur í Oxford. En það er of flókið að útskýra hvers vegna Bournemouth. Og nú er ég búin að skrifa þorpsheitið tvisvar án þess að vera alveg viss á stafsetningunni. Og nú kemur það í þriðja sinn: Ég fór einu sinni til Bournemouth. Við fjölskyldan vorum á ferð á eigin bíl þvert yfir Evrópu og áttum bátsferð heim frá Newcastle. Mamma mín lærði einu sinni fyrir löngu síðan ensku eitt sumar í Bournemouth og fékk ástarbréf frá þýskum aðdáanda lengi á eftir. Hún heimtaði pílagrímsferð þangað sem við og gerðum. Ég man eftir ágætlega skemmtilegri strönd þó ekki væri sólbaðsveður en strendur eru einmitt yfirleitt betri þannig. Og svo man ég að við gengum inn á fish and chips stað og maðurinn tilkynnti stoltur að í dag væri fiskurinn frá Íslandi. Hann trúði okkur held ég aldrei alveg þegar við reyndum að sannfæra hann um að það værum við líka. Tók okkur líklega fyrir megalómaníska Svía. Eða ekki.
En Bournemouth baby here I come. Með kampavín í töskunni! Því þó þetta sé vinnuferð er ekki á áætlun að vera neitt of þægur. Sem minnir mig á að ég átti alltaf eftir að segja ykkur að matardagbókin mín varð örsaga, ég komst fljótt að því að ég er mjög stabíl og borða reglulega þó bæði skorti morgunmat og kaffitíma of oft. En ég er ekki mikið að nasla á milli mála að öllu eðlilegu og borða úr öllum fæðuhringnum. Þetta var nóg fyrir mig, ferlega er leiðinlegt að skrifa allt svona niður. Og kannski sérstaklega þar sem vínbindindi okkar bóndans hefur snúist gersamlega upp í andhverfu sína.

Lifið í friði.