11.8.04

ísland í dag

Er það ekki sorglegt að um leið og ég get sagt útlendingum sem spyrja mig um landið mitt að veðrið hafi stórbatnað þar á síðustu árum, neyðist ég samt til að vara þá við því hvað það er hrottalega dýrt að lifa þar? Er það ekki ótrúlegt að Íslendingum finnst París dýr, og eru oft að reyna að sannfæra mig um að bjórinn heima kosti 300 krónur. Þau eru þá að tala um bari sem þau færu aldrei sjálf inn á, og þar að auki með tölur frá því fyrir þremur árum. Þetta er mjög algengt, Íslendingar virðast almennt hafa brynjað sig gegn háu verðlagi og eru alltaf að reyna að sannfæra sig og aðra um að það sé í það minnsta þess virði að borga of hátt verð fyrir hlutina því landið sé svo skemmtilegt og loftið svo gott.
Nú er Ísland að breytast í stóriðnaðarland, að mér skilst. Er ekki kominn tími til að verð á Íslandi verði líkara verðlaginu annars staðar í heiminum?
Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að smæð markaðarins og einangrun okkar gerir okkur erfiðara fyrir, en samt... ég held að styrkur markaðsaflanna sé aðallega fólginn í því að lýðurinn lætur allt yfir sig ganga og mótmælir aldrei almennilega. Hvers vegna vantar samstöðu og kraft til að mótmæla verðlaginu? Sigríður heimspekingur sagði að það væri margra alda hefð fyrir kúgun Íslendinga og við ættum því erfitt með að brjótast undan henni. Mér er sagt að nú sé dálítið komið "í tísku" að mótmæla. Kannski það sé leiðin til að knýja kraft í liðið, fá einhvern BubbaSvavarÖrnSirrýhvaðþauheitanúöllsömul til að segja opinberlega að þetta sé IN og þá gerist eitthvað?
Lifið í friði, en látið ekki ganga yfir ykkur.