9.8.04

fólk að fara

Jæja, þá kvaddi ég enn og aftur fólk sem ætlar að flytja aftur til Íslands. Í þetta sinn voru það Þórey og Magnús sem hafa tekið þá ákvörðun að snúa aftur heim. Reyndar er það flóknara en það, því Magnús heldur áfram að vinna hérna og mun hoppa á milli landanna eins og mögulegt reynist.
Ég skil alveg að fólk vilji fara aftur til Íslands eftir áralanga búsetu erlendis. Ég gerði það nú sjálf á sínum tíma. Það er mjög margt gott við Ísland og maður er alltaf rifinn í tvennt, á tvö lönd og tilheyrir báðum um leið og maður er pínulítið útlendingur í þeim báðum. Mjög flókin aðstaða og ekki fyrir alla að þola. En það er alveg furðulegt hversu margir hafa farið núna nýlega. Fyrst fór Helga, svo Guðný og nú þau.
Það er einmitt einn af stóru göllunum við að búa í útlöndum að maður lendir mun oftar í því að kveðja. Maður kynnist fólki, tengist böndum og svo fer það bara. Svo kemur maður í heimsókn til Íslands og þá er rifist um mann og svo þarf maður að kveðja og fer iðulega örþreyttur og með samviskubit aftur út. Þreyttur eftir miklar heimsóknir og þeysing, með samviskubit af því að þrátt fyrir endalausan þeysing urðu einhverjir útundan.
Ég er ekki að kvarta, ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast mörgum góðum manneskjum hérna úti, sem ég hefði líklegast aldrei kynnst á Íslandi. Ég er þakklát fyrir að eiga marga vini og kunningja og ég nýt þess út í ystu æsar að skrifa jólakortin og vera í tölvupóstsambandi og þó maður hittist ekki oft, er skemmtileg kvöldstund við og við með þessu fólki ómetanleg. Stundum líða tvö, þrjú ár og samt er eins og maður hafi hist í gær. Þetta er dýrmætt veganesti í lífinu.
Þegar maður tengist fólki böndum, tekur maður ákveðna áhættu. Áhættu á að vera svikinn og yfirgefinn. Þessi áhætta reynist í flestum tilvika vera vel þess virði, og þó að fólk færi sig um set og samverustundum fækki, er ekki þar með sagt að það hafi svikið mann. Takk öllsömul fyrir að vera til vinir mínir.
Lifið í friði.

p.s. ég er að reyna að skrifa jákvætt líka og sjáiði hvert það leiðir mig! Tóm væmni. Sverrir Stormsker snillingur sagði: Heldur klæminn, en vera væminn. Nokkuð til í því, en ég hef því miður ekki tíma til að laga pistilinn og skrifa dónalega hluti um vini mína svo þetta mun standa.