12.8.04

paris og oslo dyrastar?

Meó segir að það sé sagt að París og Osló séu dýrustu borgirnar í Evrópu. Það er vitanlega afar erfitt að bera saman borgir eins og Reykjavík og París þar sem ýmis gæði eru svo mismunandi í þessum tveimur borgum. En mér finnst það samt nokkuð ljóst að ég get lifað ódýrara lífi hér heldur en ég gæti heima á Íslandi. Ég get alveg sleppt því að sitja á kaffihúsi við Notre Dame, en ég get t.d. alls ekki sleppt því að eiga Pastísflösku í vínskápnum og fá mér rauðvín með matnum við og við. Arnaud fær sér bjór svo til á hverjum degi og þetta, ásamt frábærum grænmetismarkaði þar sem við getum keypt gott grænmeti á góðu verði gerir það að verkum að hér er ódýrara að lifa fyrir mig. Öll föt sem ég kaupi, kaupi ég í HogM eða CogA, hræódýrar búðir og hvorug til á Íslandi (tel ekki þessa "tilburði" þarna í Kringlunni með).
Annars sá ég hressilega skemmtilega mynd í dag. Bresk mynd með frönskum leikara og spænskri leikkonu og svertingja og gerist í Ammeríkunni góðu. Hún heitir Jump Tomorrow. Hermir ýmislegt eftir Hal Hartley og Jim Jarmush, leyfir sér að vera "öðruvísi" og tekur sig ekki áberandi allt of alvarlega. Mér fannst ég verða tvítug á ný að uppgötva Stranger than Paradise. OH, það er svo gaman að vera tvítugur stundum. Mæli með þessari mynd sem er frá 2001 og var fyrst að koma hingað núna vegna Hippolyte Girardot (sem við Guðný migum næstum í okkur yfir tvítugar nýkomnar til Parísar í Un monde sans pitié). Myndin kemst áreiðanlega aldrei í sali á Íslandi, (það bólar a.m.k. ekki á neinum aksjónkalli í henni) þannig að það verður að tékka á henni á góðu leigunum. Eða á Amazon? Eða stela henni af netinu? Eða sleppa þessu?
Í myndinni var orðatiltækið "to settle down" þýtt með frönsku orðatiltæki sem hefur verið að velkjast um í huga mér síðustu daga: "se ranger/un homme rangé". Var nefninlega að lesa tilvitnun sem var skrifuð 1850 þar sem höfundurinn skammast yfir þessu "settlaða/rangé" pakki sem líður vel og er skítsama um restina af heiminum sem líður ekki vel. Hvernig segir maður þetta á íslensku? Að settla sig? Að vera kominn á rétta hillu í lífinu? Hjálp óskast.
Takk fyrir kommentin Meó, Bryn og Sigurður. Þið hin megið éta það sem úti frýs.
Lifið í friði.