mánudagsraus
Mig langar að byrja þennan pistil á að senda Helgu Guðnýju baráttukveðjur, og Bjartey líka. Það er ótrúlegt hvað sumt fólk lendir í að þurfa að takast á við, og erfitt að standa hjá og geta lítið gert til að hjálpa annað en að röfla út í eitt í þriggja síðna e-póstum.Annars ætlaði ég að segja frá helginni sem var eytt með manni án barna í fyrsta sinn síðan ég man ekki hvenær. Líklega í fyrsta sinn síðan Sólrún fæddist sem við fengum tvö kvöld, tvær nætur og tvo morgna í röð barnlaus. Nutum þess út í ystu æsar, ef frá er talinn laugardagsmorguninn þar sem koníak kvöldins áður gerði höfði mínu lífið leitt. En það bráði af, og eftir sat minningin um dásamlegan kvöldverð á flottu veitingahúsi. Andabringur, sniglar og unaðslegt Búrgundarvín. MMMMMmmmmmmmMMMMM... Eftir matinn fórum við í göngutúr og þar sem portið inni í Louvre var lokað og slökkt á Pýramídanum, fórum við í Parísarhjólið niðri í Tuileries-garðinum og Arnaud tókst að halda hræðslunni innan hæfilegra marka og ældi ekki niður á fólkið á jörðinni. Svo gengum við niður á Concorde-torg og sáum Eiffelturninn blikka á miðnætti (eða var hún ellefu?) og svo fórum við og fengum okkur kampavín á bar áður en við tókum leigubíl heim. Prinsessukvöld.
Daginn eftir fórum við í bíó og sáum Köngulóarmanninn sem er frábær mynd og allir eiga að sjá í bíó. Þau eru SVOOOooooOOOO sæt og allt svoOOOOOooooo rómó. Auðvitað eru flugatriðin voða flott og allt það en hvað kemur á óvart? Maður veit að allt er gert í tölvu, ekki beint sami hjartslátturinn og þegar maður sá King Kong traðka á New York eða Superman grípa Lois Lane rétt áður en brúin hrundi í denn.
Fengum okkur svo bita á fínum portúgölskum stað í 1. hverfi og fórum svo snemma í háttinn, enda erfitt að vera prinsessa lang fram á nótt þegar maður er tveggja ungbarna móðir.
Á sunnudeginum röltum við yfir til Benoit og fengum grill ásamt nokkrum mótorhjólatöffurum og serbneskum listamönnum, og svo var barasta kominn tími til að sækja börnin! Og á leiðinni heim í bílnum var eins og við hefðum aldrei barnlaus verið. Sólrún hrífur mann beint inn í hversdagsleikann, hún talar stöðugt, bendir út um bílgluggan og bullar um það sem fyrir augu ber. Ég fæ minningar af mér í bíl og mamma og pabbi að segja mér að þegja nú í smá stund. Man hvað mér þótti þau leiðinleg og skilningsvana, en nú skil ég fullkomlega hvað bjó að baki.
Eins og stóð í einhverjum tölvupistli: maður eyðir tveimur árum í að kenna þeim að tala, og átján árum í að fá þau til að þegja!
Lifið heil og í friði.
<< Home