25.5.04

Hvað er þetta með þessar svokölluðu "skrýtnu fréttir" og dagblöðin? Er þetta nauðsynlegt? Þarf ég endilega að lesa um útlitsgallaðan elg sem stal reiðhjóli og gerði það útlitsgallað og var svo hrakinn á brott frá uppáhalds rósarunnunum sínum meðan ýmislegt alvarlegt og alvöru er að gerast út um allan heim?
Ég er alls ekki að meina að það megi aldrei segja frá því góða, en þetta er ekki einu sinni um neitt gott. Allir fórnarlömb og enginn getur leitað réttar síns, elgurinn á bágt, rósaræktendurnir eiga bágt og lesandinn ég á bágt eftir að hafa óvart lesið alla söguna því ég les svo hratt að ég gat ekki náð að hætta fyrr en hún var búin.
Ég held að þessar skrýtnu fréttir komi af netinu og sé eitt af því sem hefur breyst við prentaða miðilinn eftir að netið kom. Netið er troðfullt af mikilvægu og góðu efni, en því miður er oft erfitt að finna það innan um rusl og rugl. Megnið af e-pósti sem ég fæ er einmitt ruglað rusl. Mislélegir amerískir brandarar sem ég fæ frá fjórum aðilum og svo fæ ég hann tveimur dögum seinna illa þýddan á íslensku frá fjórum öðrum. Ég þarf ekki á leiðindabröndurum að halda til að vera glöð og kát. Ég þarf ekki að lesa um elgi sem éta rósir til að komast gegnum daginn. Ég finn miklu meiri söknuð eftir almennilegum umfjöllunum um mikilvægu alvöru alvarlegu málin og þarf mun meira á slíku góðmeti að halda. Ætli fréttablaðsdvmogginn gæti skilið það og hætt að eyða plássi í bull af netinu?
Bullið er dóp lýðsins og tilvalið fyrir ráðamenn að svona fréttir veki meiri athygli og umfjöllun á kaffistofum vinnustaðanna heldur en fréttir frumvörpum og meinvörpum þjóðfélagsins.