31.5.04

Fyrir nokkrum árum lenti ég í því að sitja í sakleysi mínu fyrir framan sjónvarpsfréttir Ríkissjónvarpsins og sjá hús sem ég þekkti mjög vel, leika aðalhlutverkið í fyrstu frétt kvöldsins. Þar hafði átt sér stað atburður sem kom í raun engum, ENGUM í landinu við nema fólkinu úr húsinu og kannski nánustu ættingjum þeirra. Mér varð svo um að ég hellti úr glasi yfir mig og ég get sagt ykkur það að RÚV fékk ættingjana upp á móti sér og, ef ég man rétt, baðst fréttamaðurinn afsökunar á ósmekklegri fréttaframsetningu tveimur eða þremur dögum síðar.
Í kvöldfréttunum í kvöld var nákvæmlega sömu aðferðum beitt og þarna fyrir nokkrum árum nema ef vera skyldi að gengið var enn lengra. Fjölskylduharmleikur er gerður að stórfrétt, "stolnar" myndir af heimilinu framan og aftan og til hliðar og eltir uppi blóðdropar sem er súmmað inn á með tilheyrandi tæknibrellum til að auka enn á áhrifin á okkur saklausa áhorfendur.
Mér varð svo um og ó að ég ætlaði beint í símann til að hringja í RÚV og segja upp áskriftinni. Þá mundi ég það að það er ekki hægt. Nei, ó, þetta er ekki DV eða Sun eða eitthvað sem ég get bara hrist höfuðið í vanþóknun yfir og hætt að kaupa. Nei, þetta er Ríkissjónvarpið. Fína stöðin hans Davíðs og þjóðar hans allrar. Þeir hafa gert mistök og fengu aðeins á baukinn. Svo líða nokkur ár og smátt og smátt þróa þeir fréttaflutninginn í þessa sömu átt og allir fréttamenn út um allan heim eru að gera og nú í dag eigum við öll líklega einfaldlega að vera sátt við það að svona sé bara heimurinn í dag.
Við erum víst öll blóðþyrst og viljum helst sjá þætti sem fjalla um bráðamóttökur og fréttir sem fjalla um ofbeldi og best ef börn verða fyrir því og við erum aldrei ánægðari en þegar ofbeldið gerðist í næsta húsi við okkur. Þá getum við virkilega fengið blóðbragð í munninn. Blanda af sorg og hryllingi og einhvers konar spennu yfir því að þetta hefði bara allt eins getað verið heima hjá okkur sjálfum.
Það er bara eitt sem truflar mig. Ég tel mig ekki vera svona áhorfanda. Og reyndar þekki ég ekki svona áhorfendur, held ég. Ég hætti við að hringja í RÚV og skammast vegna þess að ég geri ráð fyrir að allar línur séu rauðglóandi og að nú, klukkan tíu að kvöldi, sé búið að taka einhvern á eitthvað teppi fyrir þetta. Ef sú er ekki raunin, erum við sokkin svo djúpt að DV er hámenning og The Sun er sönn list.
Það er eilíft klifað á því að þetta sé það sem við viljum sjá, að við höfum rétt á því að sjá hlutina eins og þeir gerast, að fréttamennirnir búi ekki til raunveruleikann. Það sem gleymist alltaf er að fréttamennirnir taka raunveruleikann og velja og hafna og matreiða svo ofan í okkur það sem þeim þykir fréttnæmt. Allir vita í dag hvílík undrabrögð er hægt að framkvæma með réttri matreiðslu. Saltfiskur verður að hnossgæti þegar við leyfum portúgölskum áhrifum að njóta sín í eldun hans.
Fréttamenn vestræna heimsins virðast allir haldnir einhverjum bíókomplexum. Þeir breyta öllum hversdagsleikanum, snúa út úr honum og skilja okkur svo eftir með brenglaðar hugmyndir um okkur sjálf og þjóðfélagið sem við búum í. Það er nóg komið. Hingað og ekki lengra.
Ég hef alltaf verið hlynnt Ríkissjónvarpi og skylduáskrift. Í kvöld segi ég: hendum sjónvarpstækjum okkar í RÚV-húsið og hættum öllu rugli. Kaupum skjái án móttökumöguleika og förum í eina af okkar frábæru myndbandaleigum og leigjum okkur spólu þegar okkur langar að kasta okkur upp í sófa til að glápa. Það er nefninlega stundum svo gott að glápa á kassann.
En að ætla sér að taka alvarlega eitthvað af öllum þessum viðurstyggilega matreidda áróðri og raunveruleikabreglun er náttúrulega bara dauði og djöfull. RÚV á bálköst! Ég get ekki farið með sjónvarpið hérna og kastað því í Útvarpshúsið þar sem ég á ekki baun í því. En ég geri það í huganum og það er gott.
Ég er svo reið að ég ætla að hætta núna. Skrifa væntanlega meira um þetta á næstu dögum. Þangað til ætla ég EKKI að horfa á RÚV. Góða nótt.