25.5.04

Undarlegt þetta líf. Við erum í raun ekki að gera neitt annað hérna en að taka ákvarðanir, velja og hafna, og út frá því verður síðan einhver atburðarás sem við stjórnum án þess þó að ráða nokkru þegar öllu er á botninn hvolft.
Oft er ákvörðunin ekki stórt skref í lífi manns eins og t.d. í hverju á að vera í dag, hvað á að vera í matinn í kvöld. Þetta eru litlar og ómerkilegar ákvarðanir þó þær geti stundum virst afskaplega erfiðar. Og kannski hafa þær einhvern tímann breytt einhverju, kannski tók maðurinn minn fyrst eftir mér út af fötunum sem ég var í og hefði kannski látið mig framhjá sér fara ef ég hefði farið í annað, Heiðar snyrtir segir að maður eigi alltaf að vera vel tilhafður (eða a.m.k. konur) og tilbúinn að hitta þann eina rétta.
En svona hjal verður að engu þegar maður þarf að horfa upp á vinkonu sína taka ákvörðun sem engin lifandi manneskja vill þurfa að taka. Velja milli tveggja hryllilegra valmöguleika, setjast niður og gera sér framtíðina í hugarlund með vali A og síðan með vali B og sjá að hvorugt er fallegt eða gott en geta ekki hlaupist frá þessu, komin í þessa hræðilegu aðstöðu og engin góð eða fullkomin leið út. Vinkona mín er hetja. Hún er góð og gáfuð og það hjálpar henni mikið í þessari vondu lífsreynslu. Ég er svo stolt af því að eiga svona góða vinkonu, er til eitthvað betra en góð vinkona? Ég tileinka þennan litla pistil öllum góðum vinkonum út um allan heim.
Fann þessa tilvitnun inni á vef Hringsins:
"Það erfiðasta í lífinu er að ákveða hvaða brýr á að fara yfir og hverjar á að brenna." David Russel
Ég hef ekki græna glóru um það hver David Russel var, en þetta er hárrétt hjá honum, málið er að maður verður að brenna þær brýr sem maður fer ekki yfir, annars kvelur maður sjálfan sig og festist í drullupytti eilífra efasemda.