28.5.04

Yfirskriftin er í raun lygi þessa dagana þar sem ég er stödd á Fróni. Hugleiðingar úr smáborginni væri betra og réttara. Eða bara hugleiðingar af skerinu.
Annars er nú Ísland bara nokkuð gott svona miðað við það hversu undarlega er að málum staðið í stjórnsýslunni (eða stjórnsýslinu?). Alþingi er í raun eins og Friðrik Erlingsson benti á, nokkrir sjimpansar að sletta á hvor annan sama hafragrautnum. Þannig upplifi ég a.m.k. hlutina. Ég játa það að ég hef ekki borið mig eftir að fræðast um fjölmiðlafrumprump né fölsunarkálið en svona með því að fylgjast með í fréttum er þetta helst virðist allt voða mikið loft og lítið efni og maður spyr sig hvort maður ætti kannski bara að láta slag standa og bjóða fram nýjan flokk í næstu kosningum. Pabbi hélt því fram í kvöld að ég væri líklega leynisjálfstæðismanneskja en það var til að hefna sín eftir að ég stríddi honum. Ég er ekki neitt í augnablikinu. Ég veit að ég aðhyllist réttlæti og kurteisi og engir á þingi uppfylla þau skilyrði mín fyrir aðdáun, a.m.k. enginn sem kemst í fjölmiðlana. Æ og ó, mér finnst ég varla hafa rétt á að gagnrýna þegar ég veit svona lítið, en það er fyndið að taka púls þjóðarsálarinnar sem virðist upplifa þetta allt saman eins og einhvers konar keppni, Davíð hleypur upp og Ólafur í markinu... hver ætti að vera dómari, útaf með þennan, ríkissaksóknari eða ríkislögregla? Pant ráða öllu, vera fyrirliði og sóknarmaður og dómari og og og
Er þreytt og þjáð, takk fyrir kommentin og endilega drífa sig til Parísar.