13.3.08

amma pönk og hvítvínsglasið

Ég fékk bréf frá konu í morgun sem er alls ekki amma mín en ég kalla hana stundum ömmu pönk. Hún hefði kannski átt að fá kafla um sig í ömmukaflanum fyrir það, en ég lít frekar á hana sem eftirlætis tengdamömmu mína en ömmu svo það passar líklega ekki alveg. Kannski geri ég einhvern tímann lýsingu á henni þó ég sé afar hikandi við að lýsa fólki sem ég veit að les mig en amma pönk er einn af mínum dyggustu lesendum. Að hennar beiðni lagaði ég setningu um hafragraut og slátur og við yfirlesturinn lagaði ég dálítið annað sem mér finnst nauðsynlegt að þið sjáið, það var alls ekki ljóst hvað hvítvínsglasið var fyndið:

Amma kom og hélt upp á áttræðisafmælið sitt í París. Ég gleymi því ekki að þegar ég þurfti að hlaupa heim eftir tungurótartöflunum, skildi ég hana og mömmu eftir við kaffihús og kenndi þeim að biðja um kaffi kremm. Þegar ég kom til baka sátu þær með hvítvín í glasi, glottið sem ömmu tókst ekki að leyna er ein af mínum eftirlætisminningum um hana. Klukkan var um níu að morgni, glottið var blanda af skammar- og prakkarasvip.

Lifið í friði.