10.3.08

yfir og út

Það er ömurlegt veður, spáð stormi aftur seinnipartinn.

Það er verið að malbika götuna mína. Með látum.

Ég hef þúsundir lítilla og stórra verkefna á minni könnu.

Sumt er tengt hugsjóninni, eins og t.d. auglýsingabréfið sem ég sendi út í morgun. Það tekur mig að minnsta kosti hálftíma í hvert skipti. Sem betur fer fékk ég svo fallegar þakkir og hrós fyrir að senda svona auglýsingar út um daginn að það bætir upp undarlegu bréfin sem ég fæ þar sem er hvorki ávarp á undan né kveðja í lokin, bara auglýsing og ég á bara að vita hvað ég á að gera við hana. Sumt fólk er undarlega lélegt í almennum samskiptum. Ég hef aldrei hent slíkum bréfum. Kannski er einhver akkur í þessu fyrir mig, ég minni á þjónustufyrirtækið mitt, en aðallega geri ég þetta vegna þess að mér finnst það eigi að vera samskiptaleið milli Íslendinga og Íslandsvina í Frakklandi. Og fyrst enginn annar gerir það, geri ég það bara sjálf.

Annað er tengt vinnunni, finna hótel, finna tónleikastað, finna veitingahús, semja dagskrá, semja tilboð, finna hvað það er nákvæmlega sem fólk óskar eftir, reyna að skilja hvað það vill. Hringja nokkur símtöl, senda ávísun, leggja inn ávísun...
Svo þarf ég að gera ýmislegt upp við mig, ákveða hvernig ég hef þetta í sumar, hver verður forgangsröðun, á ég að hækka verðið eða ekki? (SVAR ÓSKAST).

Síðast en síður en svo síst er það námið. Leysa verkefni fyrir miðvikudag, hlusta á tímana frá því í síðustu viku, reyna að lesa meira í bókunum, það er samt sama hvað ég les kaflana oft, þeir eru obskjúr og erfiðir áfram. Oft hef ég lent í að lesa eitthvað sem virkar óskiljanlegt en verður skiljanlegt með því að hjakka á því. Það virðist ekki eiga við í þetta sinn. Kannski þarf ég að lesa setningarnar þrjátíu sinnum í stað þrisvar áður? Kannski er þetta aldurinn?

Er það nokkuð undarlegt að það sem mig langar mest akkúrat núna, er að leggjast undir teppi, hausinn líka, loka augunum og hreyfa mig ekki fyrr en þarf að sækja börnin í skólann? Mér finnst það mjög eðlilegt. En það verður ekkert svoleiðis í gangi. Best að skella höfrunum í pott og hefja þennan dag af alvöru. Ég er alltént búin að senda auglýsingarnar, get hætt að hafa magapínu yfir þeim þar til næsta auglýsing berst mér.

Lifið í friði.