12.3.08

Miðvikudagar eiga það til að hverfa út í vindinn, vera bara samverustund með börnunum án þess að nokkuð sé gert "af viti", því auðvitað teljast samverustundir með börnunum bara rugl og tímasóun á free-lance heimili eins og okkar.
En í dag byrjaði ég á því að skutla vinkonu út á völl, skaust heim og náði í vinkonu Sólrúnar og skutlaði þeim í tónlistarskólann, skaust í búðina á meðan þær slógu trumbur og sungu, settist svo niður eftir hádegismatinn og rúllaði blessuðu verkefninu upp á minn hátt (get ekki gert það á neinn annan hátt, það gefur auga leið), skaust svo með manninum mínum í tækjabúðina þar sem við létum skoða blessaða jólagjöfina sem við gáfum okkur saman, harða diskinn sem á að taka við allri tónlistinni og losa pláss í íbúðinni. Hann hefur aldrei virkað. Á fjörtíu mínútum var málið leyst, eitthvað format-vesen svo nú verður vonandi sett í spíttgírinn og diskum hlaðið inn svo ég fái pláss fyrir skóladótið mitt. Og nú ligg ég hér að hvíla mig aðeins og reyni að gera það upp við mig hvort ég á að senda verkefnið eða hvort ég á að reyna að gera betur. Eftir tíu mínútur hoppa ég í gellugallan og skutlast niður í bæ að hitta nokkrar góðar konur. Ég held ég fái mér kampavínsglas, svei mér þá ef ég á það ekki drulluskilið. Ég ætla að setja á mig varalit en hef ekki enn ákveðið hvort ég fer á hælum eða ekki.

Lifið í friði.