9.3.08

metró

Eftir langan vinnudag var ég óþreyjufull að komast heim hvar beið mín fagra fjölskylda að viðbættri góðri vinkonu sem stóð í eldamennsku. Upp hafa komið ýmsar hugsanlegar leiðir til að fangelsa hana hér, selja íbúðina hennar í Reykjavík (sem hún segir skuldsetta) og lifa betra lífi með eldabusku sem borgar með sér á heimilinu.

En fólkið í metró var eitthvað svo spennandi að minnstu munaði að ég gleymdi að fara út á réttri stöð.
Konan sem þusaði um það hvað hún hefði unnið mikið og ætti því rétt á því að vera bara komin heim - var líklega að krefjast fjarflutninga af borgarstjórn - var kannski ekki skemmtilegust, en er mér minnisstæðust einmitt núna. Ég áttaði mig ekki á því hvort glottandi karlinn við hlið hennar væri með henni eða hvort hann var bara hlutlaus samferðamaður í lestinni eins og ég.
Stúlkan sem stóð með stóra pokann fullan af frönskum kartöflum og reyndi að vera svipbrigðalaus meðan fólk gantaðist með "ilminn" var ansi hreint gott gaman líka.
Svo var eitthvað fleira sem gaman var að fylgjast með en sem hefur runnið út úr heila mínum við að melta góða máltíð og samverustund. Ég hoppaði út úr lestinni þegar hurðirnar voru að skellast saman (það er harðbannað). Metró er alveg hægt að defínera með vondri lykt og óþægilegri nærveru en að sama skapi líka með fullt af spennandi senum sem fáir ná að fanga án þess að bæta við: þú hefðir þurft að vera á staðnum.

Lifið í friði.