vinstri snú
Frakkland virðist vera að nota þessar bæjarstjórnarkosningar til að lýsa endanlegu frati á Sarkozy. Það gæti a.m.k. verið ein skýring á góðu gengi vinstriflokkanna í mörgum stærri borgum. Ekkert var talað um smábæina og mér hefur ekkert tekist að finna um Copavogure. Ekki það að ég sé að deyja úr spenningi. Hér keppa bara vinstriöfl og hafa gert áratugum saman. Verst að þau ná ekki almennilegri sátt og eyða kröftum í að bítast á í staðinn fyrir að stjórna hér af reisn.Það var gaman að fara að kjósa. Ég fór óundirbúin, vissi ekki í hvað ég var að ana og þau halda líklega að ég sé misþroska. Ég átti að taka A4 blað fyrir hvern framboðslista og brjóta svo þann sem ég vildi kjósa saman og setja í örlítið upplitað umslag merkt franska lýðveldinu sem var með gersamlega ónýtu lími. Ég henti hinum blöðunum í ruslapoka inni í kjörklefanum, fáránlega erfitt fyrir mig að þola svona pappírseyðslu en ég þorði ómögulega að koma með listana aftur fram, þá væru þetta ekki leynilegar kosningar. Ég hefði víst getað sleppt að taka alla listana í upphafi, bara valið einhverja þrjá og passað að sá sem ég ætlaði að kjósa væri með.
Þegar ég henti áðurnefndum afgangslistum, henti ég líka blaði sem þau höfðu rétt mér með nafni mínu krotuðu á, ásamt kjörnúmeri. Svo að ég kom þarna fram og fór fyrir mennina þrjá sem sátu við kjörkassann og þurfti að játa það að hafa hent aðalskjalinu, þessu sem nr. 1 átti að stimpla áður en nr. 2 læsi hátt og skýrt nafnið mitt og nr. 3 hrópaði HEFUR KOSIÐ! um leið og ég styngi kjörseðlinum í kassann.
Ég þurfti að fara aftur inn í kjörklefann, róta í ruslapokanum og finna skjalið. Þá kom í ljós sú undarlega staðreynd að ég var á venjulega kjörlistanum en ekki á Evrópusambandslistanum sem ég átti víst að vera á, burtséð frá þeirri staðreynd að Ísland er ekki í Evrópusambandinu. Það var haldinn smá fundur með konunni sem hafði hleypt mér inn upphaflega (sem hafði einmitt tuldrað að ég væri á röngum lista) og mér var hleypt í gegn, við gátum loksins leikið leikritið okkar:
nr. 1: [púmm] (þetta er hljóðið sem heyrist þegar mikilvægt skjal er stimplað)
nr. 2: dzjonzdoutí kristen
nr. 3: A VOTÉ! (þarna þurfti hann að hvísla að mér að ég ætti að troða miðanum ofan í gatið sem hann hélt opnu með lítilli sveif um leið og hann kallaði þetta hátt og skýrt).
Þetta hefði kannski verið minna áberandi ef allir hinir starfsmennirnir á kjörstað hefðu verið ægilega uppteknir við að halda röðum í skefjum, koma fleiri umslögum fyrir á borðinu og leita uppi kjósendur í bókunum, en það var enginn inni þegar ég kom og enginn annar kjósandi kom allan þann tíma sem þetta tók mig.
Ég er hins vegar enn ákveðnari í því en áður að nú drulla ég mér í að sækja um ríkisborgararétt svo ég geti tekið þátt í forseta- og þingkosningum. Það er gaman að kjósa. Stuð.
A VOTÉ!
Lifið í friði.
<< Home