10.3.08

ömmurnar

í morgun var ég að hugsa um afa minn, einhver hugrenningartengsl að verki. Ég átti bara einn afa sem ég þekkti almennilega. Hann var fósturfaðir pabba míns. Ég hitti og man vel eftir móðurafa mínum, blóðföður mömmu, en hann var aldrei alvöru afi, hafði ekki alið mömmu upp og var bara einhver svona spennandi fjarlæg týpa. Það sem var mest spennandi við hann voru allar dætur hans sem ég er einmitt búin að ná að kynnast nokkuð vel nýlega.

En ég átti margar ömmur og fór að hugsa til þeirra vegna spurningar Nönnu um það hvað ömmur gera.
Amma Helga og Amma Kristín voru konurnar sem ólu foreldra mína upp og eru því "aðalömmurnar". Amma Helga var blóðmóðir pabba og amma Kristín var fósturmóðir mömmu.

Amma Helga átti mörg börn og enn fleiri barnabörn. Hún átti ekki mikið af peningum en hún var mikil listakona, prjónaði, saumaði, óf og teiknaði og málaði. Það liggja ótrúlega falleg verk eftir hana og stundum sakna ég hennar svo mikið að mig verkjar um allan líkamann. Ég á eina lopapeysu eftir hana og svart pils sem hún saumaði á mig úr þjóðbúningaefni. Ég passa reyndar ekki í það lengur en geymi það handa Sólrúnu. Hún sýndi mér teiknibækur og kenndi mér ýmislegt í teikningu, lét mig prjóna og bakaði flatkökur á prímus úti á grasflöt í Kjósinni. Þar eyddi ég mörgum sumrum, með henni og afa og frændsystkinum í góðu yfirlæti, kannski ekki neinu ofurhreinlæti en vel nærð andlega og líkamlega.

Amma Kristín var ólík Helgu, fínni frú, meira umhugað um að hafa sig til. Hún lét mig líka prjóna, keypti píanóið og greiddi fyrir píanótímana, fór með mig í Þjóðleikhúsið og Iðnó og hún átti spennandi háaloft sem hún leyfði okkur stundum að koma með sér upp á. Þar voru rauðköflóttar töskur með vel samanbrotnum fötum, mikið af þeim gat ég notað sem táningur. Ég á tvö hekluð teppi eftir hana, annað þeirra er úr þrílitum dúllum, allar eins og átti að verða kjóll á mömmu. Fagurlega útprjónaðar peysur hennar vöktu oft mikla athygli.
Amma kom og hélt upp á áttræðisafmælið sitt í París. Ég gleymi því ekki að þegar ég þurfti að hlaupa heim eftir tungurótartöflunum, skildi ég hana og mömmu eftir við kaffihús og kenndi þeim að biðja um kaffi kremm. Þegar ég kom til baka sátu þær með hvítvín í glasi, glottið sem ömmu tókst ekki að leyna er ein af mínum eftirlætisminningum um hana. Klukkan var um níu að morgni, glottið var blanda af skammar- og prakkarasvip.

En svo var til amma Lauga sem var móðursystir blóðföður pabba. Hún fékk pabba mikið til sín sem barn, hann var hennar eini arfur eftir systursoninn sem hún hafði alið upp. Lauga kom stundum til okkar í blokkina í Arahólum, mamma var á nálum og allir þurftu að beygja sig undir hennar reglur. Þjóðlegi rétturinn hafragrautur með slátri er sterklega tengdur minningum um hana, mér þykir það ennþá góður réttur. Lauga kenndi mér margt um hjátrú og sagði spennandi sögur úr sveitinni. Hún las mikið og jólapakkinn var alltaf bók og par af þykkum fastprjónuðum ullarsokkum, oft marglitir því hún gerði vitanlega við hæla og tær og notaði þá aðra liti. Ég á ennþá sokka frá henni. Lauga var ekki amma mín en hún var mjög sterk ömmufígúra í lífi mínu.

Amma Magga var í raun bara kölluð amma Magga en hafði engin svona ömmuáhrif á mig. Hún var tíguleg og flott en hún var fjarlæg, við hittum hana einu sinni á ári, á Þorláksmessu. Hún var kona afa Finns þessa sem var líka fjarlægur og dularfullur, hún var móðir allra frábæru kvennanna sem ég minntist á hér að ofan. Amma Magga gaf alltaf hljómplötu í jólagjöf. Sú mikilvægasta var án nokkurs vafa Lög unga fólksins, en hana hlustaði ég á fram og til baka alla leið upp í Menntó.

Amma Hermína er enn á lífi. Hún var í Ameríku en býr nú á Íslandi, við þekkjumst í raun lítið og þó hún sé blóðamma mín, hef ég ekki miklar barnabarnstilfinningar gagnvart henni. Gaman að hitta hana og spjalla en hún hefur svo sem aldrei þóst vera í neinum ömmuleik við okkur, aldrei rembst við að "gera það sem ömmur eiga að gera". Hún er meira svona bara að bjóða manni í glas og ræða um Brad Pitt. Hún kallar Arnaud Arnold og er eina manneskjan úr fjölskyldunni sem nennir að spjalla almennilega og lengi við hann á ensku. Enda er hún svag fyrir frönskum mönnum.

Allar þessar konur reyndu mikið, lifðu sannarlega tímana tvenna. Það var/er töggur í þeim og ég get ekki annað en ímyndað mér að eigin sjálfsmynd væri öðruvísi ef þær hefðu ekki fylgt mér, úr fjarlægð eða nálægð, takmarkalaus kærleikur "aðal ammanna" er sérstaklega eitthvað sem ég hugsa oft um og gerir það að verkum að stundum vona ég að Sólrún verði táningamamma svo ég nái að fá að verða almennilega lengi amma.

Lifið í friði.