23.11.07

tálkn

Eins og við var að búast fékk ég viðbrögð við pælingu um tákn.
Ég er á því að táknin eru mikilvæg og merkileg, og að það skipti máli að vera meðvitaður um að ákveðin tákn eru agressíf í augum sumra, ég myndi t.d. ekki hika við að biðja afgreiðslustúlkuna með klútinn að hugsa sig vel um ef hún mætti með hann í gönguferð um Mýrina í París. Ég myndi aldrei banna neinum að ganga þar um með Palestínuklút, og ég þekki reyndar enga Gyðinga sem eru sammála því sem Ísraelsstjórn er að gera í dag, þeir móðgast því ekki sjái þeir klútinn, en ég myndi ráðleggja fólki að hugsa sig um því það gæti lent í vandræðum.
Ég myndi þó líklega neita að ganga um Mýrina með manneskju með nasistakrossinn utan á sér eða gula gyðingstjörnu um arminn. Sum tákn eru of sterk til að leika sér með.
Í raun eru það trúartáknin sem fólk virðist auðveldlegast "misnota" eða snúa út úr. Það er nú málið að trúfélög hafa oft lagt heilmikið upp úr listsköpun, í kirkjum eru fallegar rúður, fallegar altaristöflur, útskurður, mósaík og annað sem ferðamenn flykkjast til að skoða um allan heim, algerlega burtséð frá trúskoðunum. Ég er t.d. svo fræg að hafa farið í kirkju með þessum fræga yfirlýsta vantrúarmanni.
Ég hlusta á William Byrd, miðaldaskáld sem var reyndar víst bannfærður fyrir að trúarleg tónlist hans var kirkjuyfirvöldum ekki þóknanlega á hans tíma.
Ég er með dýrlingamynd í stofunni, svei mér ef þetta er ekki bara María sjálf með barnið. Ég á krossinn minn í dollunni og þykir vænt um hann af ákveðnum ástæðum. Ég er með fallegt arabískt teppi á gólfinu sem er áreiðanlega troðfullt af táknum sem ég skil ekki. Ég er með indverska gyðju uppi á vegg inni í svefnherbergi. Ég er örugglega að gleyma einhverju.
Í raun er mér "alveg sama" um táknin, þ.e. ég ber ekki ofurvirðingu fyrir þeim. Ég get ekki ímyndað mér að neitt tákn móðgi mig persónulega. Ég get t.d. sagt ykkur það að fánabrennur hafa nákvæmlega engin áhrif á mig, það myndi því líklega ekki særa mig að Frakkar brenndu íslenska fánann til að mótmæla íslenskri innrás í franskt efnahagslíf eða samþykki íslenska ríkisins á innrásinni í Íran.

Það er margt í mörgu eins og maður segir þegar manni er orða vant. Ég er að skrópa í lærdóminum með þessu brölti sem er kannski bara meiningarlaust væl. Svo ég er hætt.

Lifið í friði.