21.11.07

gíanostal

Eina nostalgían í dag var að allt í einu koma sömu villuskilaboð þegar ég ætla að hlusta á upptökur á tímum. Alveg eins og þegar ég byrjaði í haust. Kom sér verulega illa fyrir vikuprógrammið sem er ansi stíft.

Í kvöld sat ég þó ekki og las mig í gegnum skólabækur eins og ég hefði svo sem getað gert. Nei, ég var með ömurlega mynd á sjónvarpsskjánum sem ég hlustaði á líklega eingöngu til að geta hnussað reglulega og svo leysti ég sudokuþraut á milli þess sem ég kíkti á blogg. Já, það verður ekki af mér skafin letin og sukklífernið. Skyldi Valdi skafari vita af þessu?

Nú ætla ég að leggjast undir sæng með Fönix í öskubakkanum. Hef verið að glugga í hana undanfarna daga og líkar sumt vel en sumt er nákvæmlega eins og ég hef alltaf sagt að ljóðin séu mér: framandi og óskiljanlegt.

Ég skellti þó upp úr a.m.k. einu sinni. Þó að hláturjóga sé ekki neitt fyrir mig (kjánhrollur) er góður uppúrskellur í einrúmi yfir ljóði, skáldsögu, blaðagrein, bloggpistli eða öðru sem kemur algerlega á óvart, eitthvað sem ég fíla vel. Og er örugglega stresslosandi og hollur í þokkabót.

Ég sé fyrir mér að gíanostal gætu verið litlar bleikar töflur, seldar undir borðið á diskótekum og útihátíðum en líka eftirsóttar af verðandi miðaldra húsmæðrum. Hvað ætti grammið að kosta?

Lifið í friði.