22.11.07

tákn

Á Íslandi á dögunum rakst ég inn í eina af fínustu búðunum í bænum, þessa sem ekki bregst að er nefnd á nafn í innlitum hjá fólki, allir virðast hafa keypt sér a.m.k. einn hlut hjá þeim (og ekki halda að ég rífi í mig allar greinar um innvols húsnæðis ríkra Íslendinga, ónei, alls ekki, ég les auðvitað Lesbókina en ekki Daglegt líf, þetta er bara svona hlutur sem ég veit óvart). Þar stendur ung afgreiðslustúlka í fallegum svörtum kjól með svartan og hvítan klút um hálsinn. Eins og allir vita sem lesa Daglegt líf, hafa svartir og hvítir aukahlutir verið í tísku um nokkurt skeið. Ekkert við það að athuga sem sagt. Nema að klúturinn er mjög sterk táknmynd um allan heim, að bera þennan klút er afgerandi afstaða til hápólitísks máls. Ég var því mjög hissa, að í þessari fínu verslun, mætti afgreiðslustúlkan bera þetta gildishlaðna tákn utan á sér. Það er nokkuð ljóst að í Frakklandi yrði þetta ekki leyft, eða a.m.k. rætt fram og til baka áður en það yrði leyft. Stór hluti af viðskiptavinum gæti jú verið í hópnum sem myndi sármóðgast við að sjá þennan klút og því hætta á að þeir sneru við í dyrunum og kæmu aldrei aftur.
Ég veit ekki hvort ég vil heldur. Landið sem er yfirmáta upptekið af táknum, allir kunna að lesa í tákn og taka þeim ofuralvarlega, eða landið sem tekur ekki snefil mark á nokkru slíku, hengir trúartákn hvaðan sem er jafnt utan á sig sem upp um alla veggi og stillir gyðinglega sjöstjakanum út í gluggakistu á aðventunni.

Ég var mjög fegin þegar keðjan í litla gullkrossinum mínum slitnaði fyrir mörgum árum síðan. Ég lagði hann þá ofan í litla dollu og þar hefur hann hvílt síðan og ég var þar með laus við endalausar umræður við ókunnuga um það hvers vegna ég bar krossinn, hver væri trúarstaðan á Íslandi, hvort mótmælendatrúin væri ekki viðbjóðslega hörð o.s.frv. Þessar samræður opnuðu vissulega augu mín og ég er alveg ágætlega sátt við að hafa átt þær á sínum tíma, en ég var líka alveg búin að fá nóg.

Ég er líka sátt við að sjá Palestínuklútinn borinn enda hef ég tekið afstöðu til þess máls. Mér finnst samt einhvern veginn eitthvað óforskammað og sveitalubbalegt við þetta meðvitundarleysi gagnvart táknunum.

Lifið í friði.