17.11.07

kurl

Ég er með verk í hjartanu. Var að kveðja mömmu og pabba og nú er eitthvað svo áþreifanlegt að ég fer ekki heim um jólin. Tvenn jól í röð í Frakklandi. Það er í raun algert svindl.
Nú er ljóst að ég fer í próf 11. og 12. desember. Ég held ég fari ekki með fleipur, jólakortin verða að vera lögð af stað fyrir þann tíma. Í fyrra náði ég ekki að senda öll sem mig langaði, en sendi samt 70 kort ef ég man rétt. Ég þarf a.m.k. þrjár langar og góðar kvöldstundir fyrir þetta. Og ég þarf að skila ritgerð þann 3. des. Og ég þarf að lesa næstum allt pensúmið, hef gluggað í bækur hér og þar, þennan og hinn kaflann, reddað mér fyrir horn í verkefnavinnunni og les alltaf í metró og á kvöldin. En nú þarf ég að setjast niður og lesa og lesa og lesa. Milli þess sem ég vinn og vinn og vinn.
Ég er að drepast úr löngun að fara inn á Uglu og skrá mig úr kúrsunum, prófkvíðinn er þannig að ég fæ ógleðitilfinningu bara við að skrifa um þetta. En ég hef aldrei koxað á prófi, og, að mig minnir, aldrei fallið á prófi heldur. Ég hef staðið mig þrykkjuilla stundum og t.d. er ein prófminning þannig að ég eiginlega hefði heldur viljað falla, svo léleg var einkunnin. Þá panikeraði ég algerlega, heilinn lamaðist, ég kófsvitnaði, skalf og titraði og skilaði ömurlegum svörum og bjóst alls ekki við að ná. Það var vont.
Oftar hefur þó komið gamla góða keppnisskapið í komið upp í mér í prófi, þrátt fyrir kvíða á undan. Þá hef ég stundum brillerað þannig að ég hef komið sjálfri mér á óvart með nýrri sýn á efnið, skilað svörum sem ég var að rifna úr monti yfir og um leið hundsvekkt að hafa ekki getað komið þeim á framfæri í tíma. Það er fjör.

Ég er að sækja um að taka próf í Sendiráðinu, hvernig ætli það verði? Panikk eða kúlheit?

Annars komu kurl til grafar í erfiðu máli í dag. Þegar maðurinn minn kom frá Íslandi á dögunum, beið stór blómvöndur við dyrnar hjá okkur. Og ekkert kort. Hann spurði mig, spurði hina og þessa nágranna en enginn kannaðist við neitt. Við höfum horft undarlega hvort á annað síðan, spurt okkur í sífellu hvort okkar það sé sem eigi leyndan aðdáanda, ásakanir hafa gengið á víxl um framhjáhald og svikar.
Í dag kom svo gamli heyrnalausi karlinn á þriðju/fjórðu hæð upp og játaði að hafa skilið eftir vöndinn í þakklætisskyni fyrir internetaðstoð sem ég veitti honum í síðasta mánuði.
Ekkert spennandi, enginn drami, allir bara tryggir eins og hundar hérna á heimilinu.

Það er myrkur og kuldi. Mig langar í rautt te, en nenni ekki að standa upp til að brugga það. Hvað á að hafa í matinn á rólegheita laugardagskvöldi?

Lifið í friði.