13.11.07

óráð ekki góð ráð

maður lýsir hér þjáningum og sjúkdómum og ætti skilið að fá hið eðlilega athugasemdatrítment, batnaðarkveðjur og pepp. En nei, æpandi þögnin ríkir á þessari síðu.
Og ég er ömurleg, klukkuna vantar tuttugu mínútur í tólf og ég er enn lasin og get ekki sett neitt ofan í mig nema vatn. Maðurinn minn skellti reyndar maltdós í ísskápinn í morgun, en ég keypti tvær slíkar til að eiga á jólunum.

Mig langar til Svíþjóðar. Ekki það að það komi neinu við, bara datt það allt í einu í hug í sambandi við hugsanatengsl við jólin. Var að heyra að Malmö væri heitasti staðurinn í dag. Kannski ég flytji þangað, ekki getur maður flutt á klakann eins og verðlagið er þar. Annars langar mig mest að búa í litlu hvítu og svörtu skökku húsi á Normandí. Í Honfleur gekk kona um með fólk frá einhverju austantjaldslandanna og sagði sögur, ætli ég gæti orðið Honfleurdaman?

Í svefnrofunum hér áðan mundi ég eftir því að hafa séð afar litla sánuklefa sem hægt er að pota nánast hvar sem er, en mundi ekki alveg strax hvar. Svo kom það, þeir voru meðal sýningargripa á Salon Gay, Lesbienne et friendly (skemmtilega tvítyngt nafn á sýningu) sem ég kíkti á í Louvre um daginn. Þar var Icelandair með bás, hægt að smakka vodka, skoða bláalónsvörurnar, jeppaferðakynning o.m.fl.
En á sýningunni var deild sem vakti athygli mína öðrum fremur. Hún hét PLAISIRS og þar sá ég hluti sem ég er ekki alveg enn búin að átta mig á hvort voru raunverulegir eða grín. Ég breyttist í ömmu mína heitna, svoooo hneyksluð að ég náði ekki upp í nefið á mér og þurfti að hafa mig alla við að vera með ægilega kúl og slakan svip meðan á skjám upp um alla veggi léku sér ungir drengir saman. Og tækin sem hægt var að skoða og kaupa! Hvað í ósköpunum er hægt að þurfa stóra? Ha? What happendend in Mokka, stays in Mokka. Þið fáið því ekki að vita stærðirnar.

Líklega er best að fá sér malt. Jólin byrja kannski í desember en ég þarf að hreysta útlit mitt örlítið.

Lifið í friði.