14.11.07

glaðlyndið sem var

Ég er ný manneskja, vildi bara láta ykkur vita svo þið gætuð beint orku ykkar að öðru. Takk fyrir mig.

Gubbupest er ógeð. Svo grennist maður ekki einu sinni því eina sem kemst ofan í mann er sykur og hvítt hveiti og eins og allir vita er þetta tvennt versta eitur sem maðurinn hefur komist í, slæmt fyrir heilsuna og holdafarið, ánetjandi hroðbjóður. En svo gott þegar maginn er í hnút.

Hins vegar veit ég ekki hvort ég á nokkurn tímann eftir að geta rætt það við manninn minn að í gærmorgun fékk hann sér egg og beikon í morgunmat. Hann fær sér aldrei egg og beikon í morgunmat, en ákveður að gera það daginn sem konan hans liggur sárlasin á milli þess sem hún hleypur á salernið og selur upp.

Ætli það séu komnir brestir í sambandið? Var þetta viljandi? Það er nefninlega annað líka sem ég hef ekki þorað að ræða: Um daginn kom ég heim úr Versalaferð, eins og vanalega með kerruna mína og leifar af nestinu. Og hann kom ekki hlaupandi niður stigana til að hjálpa mér. Eins og hann gerir alltaf. Eða gerði alltaf?
Við erum búin að vera saman síðan 1998, gift síðan... m... 2004. Er kominn einhver vendipunktur? Blossinn farinn og héðan í frá hversdagslíf með frumskógarlögmálinu virku?

Fylgist spennt með mér breytast úr glaðlyndri eiginkonu í bitra húsmóður.

Lifið í friði.