13.11.07

normandí

Ég fór með mömmu og pabba (og börnin og kallinn reyndar líka) til Normandí um helgina. Þar á ég aðgang að yndislegu húsi sem ég skal sýna ykkur á mynd bráðum. Gamalt og lúið, skakkt og skælt, hvítt með svartri trégrind sem sést. Svarthvít kisa kúrir í gluggakistunni. Útsýnið úr stofunni er yfir dal sem fyllist af þoku á morgnana og kýr jórtra spaklegar í haga. Stutt að ganga niður að ánni og skoða gömlu stífluna, minning um stóriðju sem þykir ekki stór á íslenskan mælikvarða í dag.
Stutt að aka að skógarjöðrum eða niður að strönd og þorpin í Normandí eru hvert öðru fallegri þrátt fyrir að þarna hafi töluvert verið sprengt og skemmt í stríðinu.
Mér hefur alltaf þótt vænt um þetta hérað og alltaf langað til að sýna mömmu og pabba Honfleur. Þau urðu svo eftir og ætla líklega niður á Omaha beach í dag, ef þau nenna og liggja ekki bara og hvíla sig, prjónandi og lesandi við arininn.

Í gær vissi ég svo að nú þýðir ekkert hálfkák lengur, nú verð ég að hysja upp um mig og kasta mér af alefli út í námið ef ég ætla að ná þessum prófum í desember, sem ég ætla mér að gera.
En í morgun vaknaði ég um sexleytið og var skrýtin í maganum. Hef ég nú skilað öllu innihaldi hans í tvær áttir og ekki komið munnbita niður.
Ég veit ekki hvort þetta er eitthvað sem ég borðaði, hvort þetta er kuldinn sem sótti að mér í gærmorgun á torginu í Rouen þar sem Jóhanna af Örk var brennd á báli eða hvort þetta er einhver umgangspest sem aðrir á heimilinu fá svo í kjölfarið.
Mér líður hörmulega, hiti, skjálfti og ógleði við minnstu hreyfingu eða tal. Þetta verður að vera búið á fimmtudag, vinna framundan sem ekki verður svikist um, þ.e.a.s. ef verkföllin sem verið er að hóta stöðva ekki alla umferð og allt líf í París á næstu dögum.

Lifið í friði.