2.8.06

um skilning og vanskilning o.fl.

Enn er ég netlaus og sit hér í myrkri í yfirgefinni íbúð vinafólks okkar og nágranna og nota þeirra wifi.
Og mig langaði svooo mikið til að blogga ditten og datten í allan dag og nú sem ég sit hérna dettur mér ekkert snjallt í hug. Jú, ég las grein um Event Horizon í Lesbók og nú langar mig mikið að vita: Last þú þessa grein? Ef svo er, skildir þú hana? Og ef svo er ber ég mikla virðingu fyrir þér... eða ekki.
Las líka nokrar aðrar alveg nægilega gáfulegar og sumar ansi lúnknar (mikið er þetta nú skemmtilegt orð) og skildi þær alveg og sló mér stundum á lær og hló við fót.
Til dæmis fannst mér stóra ástarjátning rithöfundar til konunnar sinnar á heilli opnu alveg met.
Og grein sem bar yfirskriftina Kæra ungfrú Garbo var mjög skemmtileg. Hins vegar nenni ég ómögulega að lesa um kalda stríðið og á enn eftir að lesa um umhverfisvernd til hægri og vinstri. Það eru nú takmörk fyrir greinalestri á einum degi.

Í síðustu viku fórum við hjónin í sannkallaða lebenferð til lebenvina úti á Normandí. Þar var meðal margs annars rætt yfir kampavíni um það hvað orðið ECONOMIE þýðir í huga manns. Það mátti ekki svara neinu sem vísaði til pólitíkur. Bara skilninginn á hugtakinu. Til að gera langa sögu stutta (á tímabili hótaði einn að fara og koma aldrei aftur en það var aðallega af því honum var farið að leiðast hnoðið í okkur, já langa sögu stutta sagði ég) komumst við að því að orðið economie hefur nákvæmlega enga þýðingu fyrir okkur. Merkilegt? Ekki finnst mér það.
Við borðuðum líbanskan mat undir fána hizbollah. Ljúffengur matur og mikið var hressandi að rakka niður amerískun heimsins þó alltaf sé það minna hressandi þegar allir eru sammála. En við ákváðum alla vega að það væri sko alveg hægt að vera antí-ameríkanísasjónisti án þess að vera antiameríkanisti. Munurinn felst sem sagt í að vera á móti því að allir verði eins og þeir þó maður sé ekkert á móti manneskju fyrir það að vera þaðan. Þetta hlýtur að skiljast og lýsi ég nú eftir íslenskum þýðingum á þessum skemmtilegu hugtökum þar sem ég get ómögulega upphugsað þau svona alein hérna í myrkrinu án orðabóka og annarra hjálpartækja.

Ég er í brjálæðislega góðu skapi enda tók ég íbúðina í gegn í dag og tók m.a.s. til í heilum SKÁP líka og börnin mín koma heim á morgun. Ég hlakka svo til að ég titra. Í gær var allt í einu kominn barnavagn niðri í innganginum og er hann fyrir litla barnið sem fer að fæðast á næstu dögum. Ég sá hann og... ég veit ekki hvort ég á að segja frá þessu en ég fór að grenja smá. Fékk svona sting í augun og kökk í hálsinn. Ég vona að ég eigi eftir að halda mér á mottunni þegar ég hitti barnið, að ekki þurfi að fá nálgunarbann á mig. Það er eitthvað hormónarugl í mér, það hlýtur að vera, ég er svo væmin gagnvart börnum og bumbum að það hálfa væri yfirdrifið eins og sumir sögðu alltaf.

Og nú bið ég ykkur bara allra náðarsamlegast um að lifa í friði.