6.8.06

mótmælandi

Er andi í glasinu?

Hvernig er það, er einhvers staðar hægt að lesa eitthvað almennilegt um Kárahnjúkamótmælin?

Ég hefði sannarlega farið þangað ef ég hefði getað, mér finnst að allir sem á annað borð eru á móti þessum afdönkuðu leiðum til að finna vinnu handa fólki eigi að taka þátt en geri mér grein fyrir því að flestir Íslendingar sjá svona aðgerðir sem kjánalæti aflóga miðstéttar"hippa". Það þykir mér leitt og hef séð ýmislegt klisjukennt um þetta á ferðalagi mínu um netheima í dag.
Mig langar að vita:
Er það rétt sem Siggi Pönk segir, að lögregla stöðvi bíla og hefti flutning vista á svæðið? Það getur varla verið löglegt svo lengi sem fólkið er ekki að brjóta lög með því að tjalda þarna. Sem er einmitt önnur spurning: Er verið að brjóta einhver lög?
Ég er svo sem alveg á því að viðurkenna að stundum þurfi að brjóta lög til að ná áheyrn og ber ákveðna virðingu fyrir fólki sem fórnar eigin frelsi fyrir málstað sem það trúir á. En skemmdarverk á vinnusvæðinu á Kárahnjúkum er ég ekki alveg viss um að geta stutt, mótmælendur verða að muna HVAR er verið að mótmæla, muna það að Íslendingar skilja ekki svona aðferðir og geta því aldrei annað en fordæmt slíka hegðun. Og það er málstaðnum alls ekki til góða.
En ég endurtek samt aftur: Þið sem eruð á móti þessu áttuð að sjálfsögðu að sýna samstöðu í verki og mæta á svæðið í friðsamlegar fjölskyldubúðir eins og planað var að yrðu þarna. Ef þessar friðsamlegu búðir hafa breyst í ólátasvæði fyrir reiða altermondíalista og aflóga pönkara (finnst það betri lýsing en hippi á manneskju með lokka í andliti o.fl.) er það ver og miður og getum við sem ekki mættum í raun og veru ekki kennt neinum um en okkur sjálfum.

Lifið í friði.