7.8.06

mokka reið á vaðið

Ég hef alltaf verið klofin varðandi reykingabann á veitingahúsum. Mér finnst sjálfri ekkert mál að skreppa út fyrir til að reykja en óþolandi að koma heim og þurfa að þvo öll föt og sjálfa mig líka eftir setu á kaffihúsi. Þess vegna hef ég frekar aðhyllst bannið. Best hefði mér þó þótt að íslenskir veitingamenn tækju það upp hjá sjálfum sér að banna reykingar enda eru Íslendingar almennt frekar reyklausir, a.m.k. miðað við Dani og Frakka, og þó margir fái sér sígó á fylleríi er það frekar frelsun fyrir þá að hreinlega mega það ekki.
Það var mér mikil ánægja að frétta það hjá Dr. Gunna að Mokka er orðinn reyklaus staður, áður en reykingabannið tekur gildi. Þetta er einmitt kaffihúsið sem maður hafði mestar áhyggjur af, Mokka og sígó er alveg fullkomin blanda ef maður er að fá sér kaffi. Sígó passar hins vegar ekki við kakó og vöfflur sem er vitanlega það lang lang besta sem Mokka býður upp á fyrir utan góða staðsetningu, fallegar innréttingar og skemmtilegan kúnnahóp. Og einhvern veginn er ég viss um að reykjandi kúnnarnir fara bara út eða nota tækifærið og hætta fyrst þeir mega ekki reykja á staðnum sínum. Eða er ég rómantíker og naíf að halda það? Breytist Mokka núna bara í vöfflustað fyrir hlunkana úr úthverfunum?
Annars er pistill Dr. Gunna áhugaverður fyrir fleira en reykleysið á Mokka. Þarna er gott dæmi um það hvernig veitingamenn geta notfært sér góða aðstöðu og samkeppnislseysi til að lækka standardinn allverulega. Einmitt stórvandamál hér í París á helstu túristasvæðunum þar sem þjónustan er oft til vandræða og lélegar veitingar bornar fram í skjóli þess að fullt af fólki mun samt villast þarna inn og sennilega gleyma að vara hina túristana við.
Ég get nú samt ekki verið sammála Gunna um Viðey sjálfa. Mér finnst hún falleg. En burt strax með lélega veitingamenn!

Lifið í friði.