maðurinn sem tengdi
Maðurinn sem tengdi saman fyrsta kjarnorkukafbátinn, róandi lyfið (ég sagði þunglyndislyf, en í frönsku þýðingunni er talað um róandi lyf, þar kemur kannski ósættið við Wikipedia?) og litasjónvarpsútsendingar er Nick Tosches (eins gott að ég beið því ég mundi ekki eftirnafnið en var viss um að fornafnið væri Philip). Nick Tosches skrifaði sem sagt bókina "Unsung heroes of rock'n'roll: the birth of rock in the wild years before Elvis". Fyrsta útgáfa er 1984 og svo endurbætt útgáfa 1991. Þessi hugleiðing um tengingar kemur fram í inngangi höfundar. Lyfið var Miltown, kafbáturinn Nautilus og sjónvarpstækið RCA.Ég hef ekki lesið alla bókina, bara gripið niður í hana, á frönsku, virðist góð. Það er kallinn minn sem er aðdáandi.
Maðurinn sem gengur angurvær um Tuileries garðana í París er persóna í myndinni "The Age of Innocence" e. Martin Scorcese frá 1993.
Það var Dan Brown sem setti hugleiðingar um uppruna nafnsins á görðunum fremst í "Da Vinci lykilinn" og var gagnrýndur fyrir að setja þetta fram sem heilög sannindi þó að aðeins sé um kenningu að ræða.
Kenningin er sú að þetta komi frá orðinu tuile sem eru þaksteinarnir (tígulsteinar á íslensku?) og gætu hafa verið unnir úr jarðveginum á þessu svæði við Signubakka einhvern tímann.
Bókin var tekin og tætt niður hérna í Frakklandi fyrir ýmiss konar svindl og hagræðingar. Það fannst mér dálítið fyndið, hef aldrei skilið þá sem tóku þessa bók alvarlega á nokkurn hátt. Ég las hana af augljósum ástæðum, það var sífellt verið að spyrja mig hvaða kirkja, hvaða gata, hvaða leið var farin og ég sá að ég yrði að drífa mig að lesa söguna. Hún er fín afþreying, eins og skítsæmileg bíómynd, mér finnast svona pælingar alveg eiga rétt á sér, og markaðssetningin var gífurlega vel heppnuð, ótrúleg reiði sem vall upp hér vegna hennar.
Spurning 3 í kvikmyndagetrauninni, þessi er frekar auðveld, held ég (ekki það að hinar hafi verið erfiðar, líklega allt of auðvelt að gúggla svona spurningum, en ég er auðvitað að þessu til að auglýsa myndir sem gerast í París, ekki að hanka á ykkur lesendum).
Í hvaða mynd kemur Jack Lemmon upp úr Signu og skríður rólega upp á bakkann undir augnaráði steini lostinna lögreglumanna?
Lifið í friði.
<< Home