rifin
Mér líður einhvern veginn eins og ég hafi verið rifin í tætlur. Ég er svo fegin að þessi vinnutörn er búin en samt sorgmædd því þarna var svo margt gott fólk sem ég náði bara rétt að tengja við í örstuttar stundir hér og þar og veit að fæsta þeirra mun ég nokkurn tímann sjá aftur. Nema náttúrulega að af því verði að Anaiki verði komið til Íslands. Þessi kór er svoooo góður. Tónleikarnir í gær voru mikil upplifun. Maturinn þeirra var líka dásamlega góður. Verst að hópurinn var ekki alveg búinn undir hráan salinn og sumir nutu kvöldsins ekki sem skyldi vegna þess. Það er náttúrulega alveg magnað hvað allt er alltaf fínt og flott og glansandi á Íslandinu góða. Ég skil það alveg að máluð gólfin og veggir sem eru farnir að láta verulega á sjá geti virkað dálítið sjokkerandi. En það átti kannski ekki að hafa alveg svona mikið að segja, því söngurinn var toppklassi, sem og maturinn og félagsskapurinn. Er það ekki mikilvægara en glitrandi diskókúlur og silkiblóm? Eða er ég bara orðinn plebbi, hippadrusla, afdanka kommi?Ég er svo þreytt núna að ég sé stundum varir mannsins míns hreyfast og að hann horfir á mig og veit þá að hann er að tala við mig, segja mér eitthvað sem gerðist meðan ég "var í burtu" en ég bara næ samt engan veginn að skilja það sem hann er að segja.
Hlunkaðist nú samt í gegnum ógurlega grein í Le Monde frá föstudeginum um Ísland og skuldir þess sem gætu komið af stað fjármálakreppu í heiminum og hló við fót hugsandi um glæsisalina og flottu sófana og fínu bílana sem verða kannski til þess að skerið fer endanlega á kaf. Er ekki mikilvægara að lifa samkvæmt efnum og njóta lífsins en að skreyta sig og umhverfi sitt með gervifjöðrum? Ég er blúsuð. Ég er mjög blúsuð núna.
Eins gott að það er spennuefni í sjónvarpinu í kvöld. Já, nú er ég farin að geta horft á sjónvarpið á sunnudögum því "FBI Portés disparus" eða "Without a trace" eins og þessir bráðfínu þættir heita víst á frummálinu, eru komnir aftur. Mér finnst Malone alger töffari.
Farin að borða spagettí með sósu.
Lifið í friði.
<< Home