7.4.06

um og varðandi

Ég þoli það ekki lengur að lenda inn á nýjum bloggum. Eiginlega er ég hætt að elta nýjar slóðir og læt mér þessar allt of mörgu þekktu slóðir duga. En stundum villist maður óforvarendis í gegnum skemmtilegt komment eða ábendingar og sér að þarna er enn ein fín manneskja sem vert væri að kynnast nánar. Hvað eru eiginlega margar manneskjur sem vert er að kynnast í þessum heimi? Ég sem hélt að fólk væri bara fífl! Greinilega ranghugmyndir hjá mér.

Ég er búin að spá mikið í það hver má og hver á að tala um hluti eins og t.d. femínisma. Mér finnst ég hafa rétt á því að tjá mig eitthvað um það, en ég er alls enginn sérfræðingur, hef lesið allt of fáar bækur, einhvern slatta af greinum og nenni ekki einu sinni að fylgjast með íslensku síðunum um þessi mál. Ekki það að ég hafi ekki áhuga á þeim, ég bara hef ekki tíma til þess, svo mikið annað að lesa og fylgjast með.
Í raun og veru finnst mér ákveðinn kostur fylgja því hvað fólk er óhrætt við að tjá sig um hluti án þess að vera sérfræðingar á Íslandi. Hef oft dáðst að þessum eiginleika Íslendinga að hafa skoðanir á mörgu og misjöfnu. Þó að vitanlega geri ég mér grein fyrir því að skoðanirnar byggja oft á mjög yfirborðskenndri þekkingu og eru þar með kannski ekki alveg marktækar.
En mér finnst það t.d. allt í lagi að vita hvar við femínistar höfum konur eins og Svövu, þá er ég ekki að setja hana í neinn ákveðinn hóp (ljóska, pæja...), heldur að meina að hún er áberandi í þjóðlífinu, hefur verið það lengi og flestir vita hver hún er. Ég veit ekki hvað ég var gömul þegar ég vissi fyrst hver þessi kona var og enn heyri ég af henni þó ég hefði líklega alls ekki gert það einmitt núna nema af því Rafaugað fór að tala um hana.
Það getur ekki verið annað en kostur fyrir femínista sem vinna að jafnréttismarkmiðinu að geta svo auðveldlega fundið púlsinn á stöðu femínismans í þjóðfélaginu. Það hlýtur að hvetja þær til dáða að sjá að enn eru konur að misskilja orðið, enn er þessi klifun á reiðu konunni til staðar. Jú, ein bloggkona heldur því statt og stöðugt fram að slíkar konur séu til, en ég vil meina að þær séu mýta, a.m.k. alls ekki eins margar karlhatarar eins og ætla mætti af hræðslu fólks við femínismann. Enda gat konan umrædda ekki nefnt eina einustu. Ef einhver getur það, er það velkomið í athugasemdir hjá mér. Nefnið einn ofurfemínista, konu sem hatar karlmenn og vinnur ekki að "eðlilegu" jafnrétti, heldur að "ofrétti" kvenna.

Annars er föstudagur í dag, sól í París og helgi framundan. Helgi Draumalands, góð vinkona á ferð um borgina, kannski smá sveitaferð á sunnudag með krakkana.
Ég átti alltaf eftir að svara spurningunni um hvaða karl vildi meina að tengls væru milli þunglyndislyfja og litasjónvarpsins. En nú finn ég ekki greinina sem ég gekk frá í tiltektarkasti um daginn. Get ekki munað hvernig eftirnafnið er skrifað. Svara þessu um helgina en kem hér með nýja getraun:

Í hvaða kvikmynd syngur Fred Astaire á "fegurstu breiðgötu í heimi" Champs Elysées?

Lifið í friði.