3.4.06

ofboðslega

Ofboðslega er leiðinlegt að mæta á opinberar stofnanir. Þessi morgunn fór í að tala við konur sem kunna reglurnar og finnst fólk sem passar ekki inn í formúlurnar gæti allt eins verið holdsveikisjúklingar og stórhættulegt skítapakk.
Ég er hins vegar alls ekki á því að láta svona konur vaða yfir mig því mér finnst það afar óeðlilegt jafnrétti að sumir fái og aðrir ekki og mér er skítsama þó að sumir hafi verið mistök. Hvernig væri að þær sæju að það sem þær telja mistök er einmitt eðlilega afgreiðslan og gefi okkur grænt ljós líka?
Ég skal einhvern tímann útskýra þetta ef ég verð beðin, en ég lofa ykkur að þetta eru tóm leiðindi eins og allt sem maður þarf að fara með í opinberar stofnanir.
Núna ætla ég að fá mér að borða og svo fer ég annað hvort að sofa eða mála. Mér líður ennþá eins og ég sé tussa breidd á klett. Og ég þarf að fara til tannlæknis á eftir. Lífið er ómögulegt í dag. Og ég sem þyrfti að senda nokkra meila, hnýta nokkra hnúta, en það verður að bíða morguns þó að börnin verði heima því auðvitað er aftur allsherjarverkfall.

Annars þarf ég að skrifa um eðlilegt og óeðlilegt jafnrétti sem Hreinn Hjartahlýr veltir upp spurningu um. Í fyrsta lagi má spyrja sig hvað gangi að blaðamanni sem spyr þessa athafnakonu um svona mál. Af hverju í fjandanum er búist við því að hún hafi eitthvað um þetta að segja? Það má spyrja hana um tollskýrslur, litaval og buxnasnið. Það er óréttlátt gagnvart henni að hanka hana á spurningum um femínisma. Það er vissulega alltaf áhugavert að sjá að enn skuli fólk ekki geta skilið þetta orð, að enn skuli það tengjast einhverju ljótu, einhverjum öfgum, einhverju ofur-réttlæti sem byggir á því að konur séu rétthærri en karlar og að karlar séu aumingjar. Það er frekar lamandi, eftir allt sem hefur verið ritað og rætt um þetta og það góða starf sem íslenskir og erlendir femínistar hafa unnið í að upplýsa fólk. En þessi tiltekna kona er sennilega mjög upptekin og situr líklega sjaldan við lestur greina um annað en það sem viðkemur tísku eða verslun og viðskiptum. Og er það mitt að dæma hana fyrir það?

Lifið í friði.