6.4.06

draumaland og hatur

Ég er búin að lesa svo mikið fallegt um bókina "Draumalandið" að ég hálfkvíði því að lesa hana.
Hún kemur til mín með vél Fluglei... nei ég meina FL Gr... nei, ég meina ... æ ég man ekkert hvað ég meina.
Hún kemur til mín með beinu flugi á laugardaginn. Ásamt fleiri góðum bókum því ég ákvað að vera sniðug og pantaði nokkrar aðrar með burðardýrinu.
Bókakaup á Íslandi eru svona dæmigerður hlutur sem maður getur ekki leyft sér eftir tveggja vikna frí þar með fjölskylduna. Þá er maður búinn að eyða svo miklu í sundkort, pylsur, kókosbollur, súkkulaðibolla og vöfflur að maður þorir ekki að stinga nefinu inn í bókabúð. En að láta annan gera þetta fyrir sig úr fjarlægð svona rétt eftir borgunardag er hins vegar fínt plan.

Ég hef séð einhverja bloggara spyrja sig hvort ráðamenn lesi bókina. Ekki veit ég hvort höfundur sendi einhverjum þeirra áritað eintak, mér hefði þótt það við hæfi. Það rifjaðist upp fyrir mér að þegar myndin "La Haine" eða "Hatur" kom út í Frakklandi horfðu þingmenn og forseti á hana í sérstakri forsýningu og gátu því ekki látið sem þeir vissu ekki af henni. Myndin fjallaði um úthverfavandamálin og vitanlega hefur lítið gerst í lausn mála fólksins sem situr fast í lægsta stigi þjóðfélagsins þó að ráðamenn hafi horft á bíómynd um það. Það sást glöggt í haust að hiti er í kolunum á þessum svæðum.
Ég held að það geti bara ekki verið að íslenskir stjórnmálamenn lesi ekki bókina. Hins vegar er annað mál hvort þeim beri einhver skylda til að svara henni. En að mínu mati ber blaðamönnum a.m.k. skylda til að krefja þá svara við spurningunum sem bókin veltir upp.

Lifið í friði.