heilinn minn
Á neðstu hæðinni í blokkinni búa gömul hjón, indæl og hjálpfús. Þau hafa m.a. tekið að sér það verkefni að dreifa póstinum í póstkassana og svo eru þau sjálfskipaðir dyraverðir, glittir iðulega í þau úti í glugga þegar maður er að leita að lyklunum í töskunni og stundum koma þau fram á gang til að spjalla, kallinn vill endalaust tala ensku við mig og börnin, en það er allt önnur saga.Um daginn kom ég heim um hádegisbilið og hafði þá pósturinn komið með pakka, stórt og feitt umslag, til mín sem þau höfðu veitt móttöku eins og þau gera iðulega til að spara manni ferð á pósthúsið. Samt var tilkynning um stórt umslag í sjálfum póstkassanum. Ég gerði ráð fyrir að pósturinn hefði verið búinn að gera tilkynningu og stinga henni í kassann en geymdi nú samt þessa tilkynningu því einhver efi leyndist í djúpum huga míns. Eftir að hafa horft á þessa tilkynningu í nokkra daga tók ég hana upp og reif hana en henti henni ekki.
Svo var ég í bílnum og þar hugsa ég og áttaði mig á því að ég var að bíða eftir öðru umslagi, frá Eimskipum, sem, eins og ég sagði ykkur á dögunum, lesa bloggið mitt og vorkenndu mér yfir dagatalavandræðum og ákváðu að senda mér dagatal.
Í dag fór ég með rifinn miðann á pósthúsið og nú prýðir undurfagur Tjaldur á steini vegginn hér við skrifborðið mitt.
Takk Eimskip. Takk M.
Stundum er ég hreinlega skíthrædd við það hvað heilinn í mér er hæggengur. Alzheimer light?
Lifið í friði.
<< Home