traduire c'est trahir
Ég bið aðdáendur mínar afsökunar á fjarverunni í gær. Ég var gubbandi allan daginn. Byrjaði fyrir níu um morguninn og hætti eftir níu um kvöldið. Man ekki eftir öðru eins og er þó gubbin mjög að eðlisfari. Uppsölunum fylgdi hiti og nú er bara að vona að aðrir fjölskyldumeðlimir fái ekki pestina. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að horfa upp á krílin mín svona lasin.Ég er varla nema hálf manneskja ennþá en fór samt hluta af bloggrúntinum áðan. Komst að því um daginn að Hvalur er byrjaður aftur að blogga. Það er gaman. Hnakkus er líka byrjaður aftur. Svona er þetta, fólk reynir að hætta og tekst kannski í smá tíma en svo er þetta bara of freistandi að básúna þessari skemmtilegu blöndu af einkalífi og pælingum yfir einhverja lesendur sem maður þekkir eða ekki.
Ég hef hnotið um það undanfarið hjá einhverjum bloggurum að þeir virðast hálf hræddir við þýðingar. Frakkarnir segja "traduire c'est trahir" sem er vitanlega illþýðanlegt á íslensku en táknar samt að þýðing er svik.
Þýðing er auðvitað alltaf túlkun, staðfæring og þar með svik við frumtextann. En ég skil samt ekki að fólk hiki við að vitna í t.d. frönsk eða þýsk gáfumenni á okkar ástkæra ylhýra, eigum við ekki ágæta þýðendur og er ekki alltaf betra að texti sem við viljum koma á framfæri skiljist af sem flestum? Þegar ég les þýskar tilvitnanir skil ég þær ekki, franskar tilvitnanir skil ég vitanlega en ég myndi ekki setja inn franskar tilvitnanir hér, nema með þýðingu, eins og ég gerði hér að ofan.
Ég myndi líklega skrifa langan og reiðan pistil um þetta ef ég væri búin að borða meira en nokkrar þurrar kexkökur í einn og hálfan sólarhring. Ég finn að ég get bara ekki setið við tölvuna lengur. Skriðin undir teppi, hlýtur að vera einhver hádegisleikur í sjónvarpinu þar sem ég get horft á fólk vinna 3000 evrurnar sem mig vantar svo núna.
Ef einhver á góða vídeóvél, þ.e.a.s. prófessíónal, og einhvern tíma aflögu fljótlega, er ég til í að gera portrettmyndir af múslímskum innflytjendum í "heitu" úthverfunum með hinni sömu.
Lifið í friði.
<< Home