24.2.06

matur er góður

Allur matur á að fara upp í munn og ofan í maga.

Mér finnst næstum allt gott.
Ég forðast samt súrmat þó ég kunni vel að meta allt annað á þorrabakkanum, hákarlinn líka. Og kæst skata er namminamm.

Ég þorði aldrei að smakka steak tartare, hrátt nautahakk, þangað til mér var boðið í mat og það var á boðstólnum. Síðan þá fæ ég mér slíkt einu sinni á sumri. En ég get aldrei klárað af disknum. Allt í einu fæ ég nóg og ekki smuga að koma bita niður eftir það.

Ég myndi helst ekki vilja lenda í matarboði þar sem skordýr eða mannakjöt væri á matseðlinum. Ég veit ekki hvort ég gæti borðað maura eða flugur, finnst samt ólíklegt að ég myndi ekki kúgast. Mannakjöt vil ég helst ekki prófa, né rottukjöt. Vil þó að það sé á hreinu að ef ég er dauð á fjalli má hver sem er leggja mig sér til munns til að bjarga lífi sínu. Og hirða gullið úr tönnunum í leiðinni ef vill.

Ég borða alla osta, alla ávexti, allt grænmeti, allt krydd finnst mér gott, ég er mikið fyrir steikur og fugl og finnst framandi matur eins og kálfsheili eða vambir gott. Ég borða lifur, hjörtu og nýru, líka úr litlum dýrum. Allt sem kemur upp úr sjónum finnst mér gott, líka litlar rækjur sem borðaðar eru með öllu, og minna dálítið á skordýr.

Mér finnst allar súpur góðar, bæði tærar og rjómalagaðar.

Ég er mikil desertakona, súkkulaði er uppáhaldið, en allt sætt er gott. Íslenskur rjómi er bestur.

Það sem mér dettur í hug er kjöt úr dós, svona aularéttir eins og ravioli í "tómat"sósu eða aðrir tilbúnir niðursoðnir réttir. Það kaupi ég aldrei. Nema náttúrulega andakjöt sem er lostæti soðið niður i fitu.
Hins vegar á ég yfirleitt eitthvað tilbúið í frystinum, því það koma sannarlega dagar sem mig langar ekki vitund að elda kvöldmat.

Þar hafið þið það. Ég er búin að vera orðlaus yfir því sem bloggarar eru að telja upp og geta ekki borðað. Ég held ég hafi aldrei verið sérlega matvönd, þó ég muni eftir mér vælandi yfir soðnum fiski á einhverju tímabili. Ég hef alltaf borðað hafragraut og aldrei sykraðan, bara eins og hann kemur úr kúnni.


Lifið í friði.