28.2.06

ástarsorg

Ég gekk í gegnum ansi mörg sambönd og jafnmörg sambandsslit áður en ég fann þennan eina rétta. Stundum var það ég sem fékk nóg, stundum þeir. Stundum tók ég því af léttúð en stundum var þetta sárt lengi. Einum man ég sérstaklega eftir, við áttum stutt samband og það var fjarskiptasamband allan tímann. Ég í Frakklandi og hann í Þýskalandi. Hann sendi mér uppsagnarbréf og ég grét. Þetta var fyrir tíma tölvupóstsamskipta og sms. Svo kom ég í frí til Íslands og fór á bar með vinkonu minni. Hann gekk þar inn skömmu síðar og ég fór í kleinu og grenjaði alla leiðina heim í bílnum og alla nóttina. Djöfull fannst mér hann sætur og ég bara trúði því ekki að okkur væri ekki skapað að vera saman.
Mörgum árum seinna flutti ég til Íslands, fór í HÍ og vann með skólanum á vídeóleigu. Það var vissulega skref afturábak að einhverju leyti, að vera stelpa í sjoppu að nálgast þrítugsaldurinn, en þetta var skemmtilegur tími og ég sé alls ekki eftir neinu. Inn á vídeóleiguna gekk einn morguninn þessi fallegi maður. Það var sunnudagur og greinilega þynnka í gangi. Hann var með konunni sinni og þau voru í eins úlpum. Ég hef sjaldan læknast jafnundarlega hratt á söknuði eftir einhverju sem ég aldrei fékk.

Lifið í friði.