ekkert gerist einmitt núna
Það er ekki laust við að maður sé uppgefinn eftir lestur á "rök"ræðu um Myndbirtingamálið Mikla hjá honum Stefáni Kaninku. Er ég með hann í tenglasafni? Man það ekki, ég les hann alltaf í gegnum Mikka en er ekki viss um að hafa sett hann í safnið sjálft.Persónulega er ég algerlega sammála Rafauganu nafnlausa ógurlega. Einhvern tímann man ég nú eftir að hafa séð nafnið hans á hans eigin bloggi, minnir mig. En ég ætla ekki að gefa það upp, enda ekki uppljóstraratýpa í mér. En Rafaugað birti eina sterkustu færslu um þetta allt saman sem ég hef séð, hvort sem er á íslenskum eða frönskum bloggum. Hann var reyndar töluvert misskilinn, enda spar á orðin og stundum dálítið erfitt að vera viss um hvað hann er að fara.
Fyrrnefndur Stefán er líka með svipað hugarfar gagnvart þessu og ég (eða við Rafauga og margir fleiri). Hvað er þetta með fullorðna (hvað eru þeir annars gamlir?) menn sem sjá einhvers konar islamska ógn koma yfir okkur vestræn þjóðfélög? Ég er kjaftstopp þegar ég sé svona þvælu á netprenti. Hef persónulega meiri áhyggjur af yfirgangi Bush og félaga.
Það er að koma út mynd um óeirðirnar hérna í nóvember sl. Kannski eru flestir búnir að gleyma því að hér í Frakklandi brunnu slatti af bílum eftir að tveir ungir menn brunnu á háspennukapli á flótta undan lögreglunni (sem er að vísu ekki búið að úrskurða með dómi að hafi verið ástæðan). Það verður spennandi að sjá þessa mynd, og ég ætla líka að lesa bók sem lögfræðingar fjölskyldna hinna látnu voru að skrifa og deilir á réttarkerfið. Enn annað mál sem sýnir vankanta réttarkerfisins hérna. Varla á það bætandi, Outreau-málið (þið getið séð nýlega umfjöllun um það hjá Þórdísi, hún er í tenglalistanum) er svo sem alveg nóg til að sýna hversu auðvelt er að verða saklaust fórnarlamb og sitja í fangelsi og missa börnin sín og lífið úr höndunum. Því það kom Þórdís ekki inn á að a.m.k. ein kona hefur ekki getað fengið börnin sín til baka frá fósturfjölskyldunni, þau hata móður sína og neita að koma til hennar aftur. Þetta mál er óendanlega óhugnalegt og var uppspuni og mistök í offorsi lögreglu og dómara frá upphafi. Líklega eiga fjölmiðlar einhvern þátt í þessu offorsi og vitleysu. Læt ykkur vita hvernig bókin er. Hún heitir Morts pour rien, fyrir þá frönskumælandi lesendur sem gætu haft áhuga á að finna hana.
Ég hlakka til þegar myndbirtingarmálið hættir að vera æsingamál, fær að sjatna, og einhver góður rannsóknarblaðamaður (er ekki einmitt ein mjög góð og verðlaunuð á Fréttablaðinu) fer af stað og safnar viðtölum, upplýsingum og staðreyndum saman og býr til góða bók úr því. Þannig á þetta að vera. Það er allt í lagi að ræða málin meðan þau eru að gerast, en það má ekki gleyma því að það gerist aldrei neitt fyrr en eftir á.
Sannleikurinn er ekki til. Ekki í nútíðinni. Allt er að gerast en ekkert á sér stað. Eða eitthvað svoleiðis. Eða ekki.
Lifið í friði.
<< Home