sundurlausir punktar
Í gær var PLANTU í sjónvarpsþættinum mínum, Arrêt sur images. Það er hægt að sjá hann á vef France 5.Plantu er líklega einn þekktasti og virtasti skopmyndalistamaður Frakklands. Hann teiknar á forsíðu Le Monde sem er eitt af stærstu vinstrisinnuðu (en um það má óneitanlega deila hversu mikið það er til vinstri eins og alls staðar í okkar frjálsa skítakapítalíska heimi) dagblöðunum í Frakklandi.
Plantu er að nálgast sextugt en hefur alltaf haldið sínu strákslega yfirbragði sem ég tengi oft við góða geðheilsu og fallegt hugarfar. Hann er nýlega búinn að sitja fund með Kofi Annan þar sem þeir lögðu á ráðin með að láta skopmyndalistamenn hvaðanæva úr heiminum hittast og ræða málin og bera saman bækur sínar. Plantu segir að skopmyndir eigi að vera ádeila, eigi stundum að fara niður fyrir beltisstað, eigi að trufla, æsa, ögra og reita til reiði, en hann varar þó við því að láta þessa listgrein stjónast af hatri. Hatrið er það versta, samkvæmt honum.
Persónulega finnst mér myndin sem hann teiknaði af Múhameð sú besta af þeim sem ég hef séð undanfarið. Það sem er skrifað er: Ég má ekki teikna Múhameð.
Plantu bendir á að skopmyndir geta haft tvö mismunandi hlutverk: Vera fyndnar eða túlka hneykslun eða vanþóknun. Þannig er t.d. mynd af presti að leita á lítið barn ekki ætlað að vera fyndin, heldur sýna hneykslun teiknarans (og almennings) á barnaníðingum í prestastéttinni og að kirkjan skuli voga sér að hylma yfir með þeim.
Þetta var málið með margar myndanna í Jyllandsposten. Þær voru ekki fyndnar, tákna eingöngu vanþóknun.
Fjölmiðlar hömuðust við að sýna reiði og mótmæli og bera okkur fréttir af brennandi sendiráðum og konsúlötum. Það hefur alveg gleymst að leggja áherslu á það að margir mótmælenda voru að mótmæla mynd af belgískum trúð í svínsbúningi sem þeir töldu vera mynd úr Jyllandsposten.
Það hefur alveg gleymst að leggja áherslu á það að mörg mótmælanna voru um það bil 30 manns að öskra saman. Ég hef séð slík micro-mótmæli á götum Parísar og get lofað ykkur því að það er bara fyndið, enginn kraftur í slíkum fámennum fundi. Sömu áhrif og maður á kassa að básúna endalok heimsins. En lítið mál að draga inn linsuna og gera þetta áhrifamikið á mynd. Það er list sem fréttamenn stunda óspart.
Það hefur alveg gleymst að leggja áherslu á að fæst Arabaríki banna myndir af Múhameð, þetta bann á eingöngu við um öfgastjórnir eins og þá sem stjórnar Ameríkuvinunum í Sádí-Arabíu.
Það er mjög áhugavert að þegar múslimskur öfgasinni öskrar er það Allah "að kenna", en þegar kristinn öfgasinni boðar að jörðin er flöt eða að þyngdarlögmálið sé lygi er það hann sem er bilaður. Ekki Guð.
Allah ber ábyrgð á öllum fávitunum sem þykjast lesa hatur, sadisma og hefndargirni úr kóraninum.
Guð er alsaklaus af öllum feitu og freku fávitunum sem níðast á stórum hluta jarðarinnar, bæði fólki, dýrum og náttúruaðlindum.
Lifið í friði.
<< Home