24.2.06

hani í víni

Nú er fuglakjöt hætt að seljast út af hysteríu þó að fjölmiðlar hafi neyðst til að sjá að sér og séu hættir hræðsluáróðri. Landbúnaðarráðherra mætti víst til Denisot á Canal plus í gær og borðaði kjúkling í beinni útsendingu.
Ég er mjög ánægð með verðhrun á fuglakjöti, mér finnst það svo gott og er ekki vitund hrædd um að ég deyi úr fuglaflensu. Kannski óþarflega óhrædd, veit það ekki, en ég bara get ekki haft áhyggjur af þessu. Hef áhyggjur fyrir hönd vesalings fugla um heim allan og auðvitað miklar áhyggjur af bændum, sérstaklega þeim sem ala hamingjusama kjúlla á lífvænu fæði, þeir verða verst úti því þeir eru með fuglana úti og það er dýrt dæmi fyrir þá að koma fuglunum sínum í skjól. Þeir munu tapa miklum peningum og kannski aleigunni, komist flensa í fiðurfé þeirra. Eitthvað er Evrópubandalagið að lofa fjárhagsaðstoð.

Í gær byrjaði ég daginn á því að elda kvöldmatinn. það var mjög góð hugmynd hjá mér. Eldaði stóran pott af coq au vin, sem mér skilst einmitt að hafi verið uppskrift af í Gestgjafanum nýlega. Mín uppskrift er úr frönsku biblíunni minni, stór og þykk bók með engum myndum sem ég nota mjög mikið við að elda upp úr og jafnvel til lestrar mér til ánægju (food porn, þið munið) og yndisauka. Alltaf jafn gaman að lesa uppskriftir og þessi bók sannar að það þarf ekki glansandi pappír og fínar myndir til að gera góða matreiðslubók. Þessi góða bók heitir Mon bouquin de cuisine og er eftir franska Nönnu sem heitir Francoise Burgaud.

Hamingjusamur lífvænn kjúklingur soðinn í rauðvíni og kúklingasoði með gulrótum, púrrulauk, hvítlauk, skalottlauk og bara lauk með bouquet garni og smá tómatpúrru. MMMmmmm heppnast alltaf jafnvel hjá mér. Við vorum í sæluvímu í gærkvöld yfir matnum.
En ég er ekki eins hress í dag enda langur og vel rauðvínsleginn dagurinn í gær.

Hvar er Hjörtur með kvikmyndagetraunina?

Lifið í friði.